Erlent

Leggur til milljarða sparnað í ríkisrekstri

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sir Phillip Green telur að breska stjórnarráðið geti hagrætt verulega án þess að reka starfsmenn. Mynd/ AFP.
Sir Phillip Green telur að breska stjórnarráðið geti hagrætt verulega án þess að reka starfsmenn. Mynd/ AFP.
Sir Phillip Green, eigandi Topshop verslunarkeðjunnar, telur að breska ríkið geti skorið niður um 20 milljarða sterlingspunda á ári án þess að segja upp einum einasta opinbera starfsmanni.

Green skilaði í gær af sér skýrslu til breskra stjórnvalda með hugmyndum um sparnað í opinberum rekstri. Green segir að ríkið geti sparað með því að nýta sér einfaldlega stöðu sína sem stærsti fjárfestirinn á markaðnum. Þannig ætti ríkið að kaupa vörur og þjónustu með magnafslætti. Sparnaðurinn sem Green segir að megi ná nemur 3500 milljörðum íslenskra króna.

Breska blaðið Daily mail segir að í skýrslu Greens komi fram hörð gagnrýni á óhóflega eyðslu starfsmanna breska stjórnarráðsins. Blaðið segir að í skýrslunni hafi Green gagnrýnt harðlega það sem hann telur vera skort stjórnvalda á vilja til þess að spara peninga. Green sagði að ef hann ræki fyrirtæki sín eins og stjórnvöld starfræktu ríkissjóð þá yrði hann gjaldþrota.

Á meðal annarra ráðstafana sem Green leggur til að ríkið grípi til við sparnað er að skera niður hótelgistingar sem starfsmönnum breska stjórnarráðsins hefur verið boðið upp á í tengslum við ráðstefnur sem haldnar hafa verið í miðborg Lundúna. Í staðinn verði ráðstefnum með fjarfundabúnaði fjölgað. Green telur að með þessu megi spara 38 milljónir sterlingspunda á ársgrundvelli. Þá telur Green að spara megi stjórnarráðinu 800 milljónir sterlingspunda í símakostnað.

Phillip Green er Íslendingum kunnur. Hann er eigandi Arcadia eignarhaldsfélagsins sem Jón Ásgeir Jóhannesson hugðist fjárfesta í áður en Baugsmálið komst í hámæli.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×