Viðskipti erlent

Íslandsvinur ráðleggur breskum stjórnvöldum í ríkisfjármálum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sir Philip Green ráðleggur breskum stjórnvöldum í ríkisfjármálum. Mynd/ afp.
Sir Philip Green ráðleggur breskum stjórnvöldum í ríkisfjármálum. Mynd/ afp.
Íslandsvinurinn Philip Green mun í næsta mánuði skila breskum stjórnvöldum niðurskurðartillögum sem teymi á hans vegum hefur unnið fyrir hið opinbera í Bretlandi.

Financial Mail segir frá því að fyrir fjórum árum hafi Green sent þrjá menn á sínum vegum í Seðlabanka Bretlands til að óska eftir fundi með Mervyn King seðlabankastjóra. Tilgangurinn hafi verið að veita Seðlabankanum ráð um það hvernig eigi að spara í hvers kyns neyslu, allt frá kaupum á ljósritunarpappír til leigu á fasteignum eða greiðslu orkureikninga.

Skýrsla Greens og félaga um málið er væntanleg í næsta mánuði, en nákvæm tímasetning hefur ekki verið gefin upp. „Ég er beinlínis í símanum núna að ræða málin," sagði Green í samtali við blaðamann Financial Mail á föstudaginn. Hann sagði að of snemmt væri að segja til um hver niðurstaða sín yrði. Hann myndi þó líklegast kynna hana persónulega.

Philip Green og Jón Ásgeir Jóhannesson hafa verið félagar um árabil og til stóð um tíma að Jón Ásgeir myndi fjárfesta í Arcadia, eignarhaldsfélagi Greens. Þá fundaði Green með ráðherrum í ríkisstjórn Íslands skömmu eftir bankahrunið árið 2008 og bauðst til að kaupa helstu eigur íslenska ríkisins á brunaútsölu.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×