Viðskipti innlent

S&P ætlar að bíða til aprílloka með nýtt lánshæfismat

Matsfyrirtækið Standard & Poors (S&P) segir að ákvörðun um stöðu lánshæfismats Íslands á gátlista verður tekin fyrir lok apríl 2010. Á næstu vikum mun S&P fylgjast með viðræðum, annars vegar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og norrænar ríkisstjórnir, og hins vegar við bresk og hollensk stjórnvöld.

Þetta kemur fram í álitinu sem S&P sendi frá sér í gærdag um stöðu Íslands hjá matsfyrirtækinu. Þar segir að erfiðari staða í samningaviðræðunum eða verri aðstæður í viðkvæmu efnahagsjafnvægi Íslands gæti leitt til lækkunar lánshæfismats í „BB" flokk.

Hins vegar mun þróun í átt að Icesave-samkomulagi eða tryggt erlent lánsfé fyrir efnahagsáætlun Íslands leiða til þess að lánshæfiseinkunn nái jafnvægi í núverandi stöðu.

„Við álítum að atkvæðagreiðslan leiði til nýrra samningaviðræðna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um endurhönnun efnahagsáætlunarinnar, í því skyni að draga úr hlut erlendrar fjármögnunar. Á sama tíma teljum við mögulegt að norrænu ríkisstjórnirnar eða aðrir alþjóðlegir samstarfsaðilar muni sýna sveigjanleika og veita lán, á meðan ríkisstjórn Íslands heldur áfram að semja við bresk og hollensk stjórnvöld um lausn Icesave-málsins í góðri trú," segir í álitinu sem birt er á vefsíðu Seðlabankans.

„Við vekjum athygli á að Norðurlöndin veittu fyrsta hluta lánsins í desember 2009, jafnvel þótt Icesave-lögin hafi ekki verið komin í gegnum þingið eins og í fyrstu var gerð krafa um, heldur aðeins verið samþykkt af ríkisstjórninni. Við teljum að ákvarðanir um útgreiðslu lánsfjár í framhaldinu muni ákvarða hve sterk samningsstaða Íslands verður í samningaviðræðum við Bretland og Holland."

Þá segir að líklegt sé að samningaviðræður verði flóknari í nánustu framtíð vegna komandi kosninga bæði í Bretlandi og Hollandi, í kjölfar falls hollensku ríkisstjórnarinnar í síðasta mánuði. „Við álítum þó að það séu hagsmunir allra þriggja ríkisstjórna að vinna áfram að lausn málsins," segir S&P.

Standard & Poor's hafa ekki trú á því að ríkisstjórn Íslands muni segja af sér vegna atkvæðagreiðslunnar eða að óleyst Icesave-deila muni hafa áhrif á nýhafnar aðildarviðræður við Evrópusambandið, sem á þessu stigi málsins hafa ekki áhrif á lánshæfismatið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×