Viðskipti innlent

Seðlabankinn opinn fyrir gjaldmiðlaskiptasamningum

Seðlabankinn segir að ekki sé loku fyrir það skotið að hann komi tímabundið að lausn mála varðandi misvægi gjaldeyriseigna og -skulda. Yrði það að öllum líkindum gert með vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamningum af einhverjum toga þar sem bankinn yrði milliliður á milli bankanna og innlendra aðila með öfugt ójafnvægi.

Þetta kemur fram í ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabankinn gaf út í gærdag. Þar segir að slíkar lausnir myndu þó að öllum líkindum takmarkast við að aðstoða fjármálafyrirtæki við að draga úr gengisáhættu vegna eigna í erlendum gjaldmiðlum sem skila gjaldeyristekjum í rekstri.

Segja má að eignir af þessum toga séu hluti af starfsemi bankanna til lengri tíma enda má gera ráð fyrir að ávallt muni hluti fyrirtækja og heimila hafa tekjur í erlendum gjaldmiðlum og því þurfa fjármögnun í samsvarandi gjaldmiðlum. Öðru máli gegnir um greiðsluflæði annarra eigna í erlendum gjaldmiðlum.

Þegar kemur að greiðslu fær fjármálafyrirtæki afhentar íslenskar krónur fyrir eign í erlendum gjaldmiðli. Því lækkar staða erlendra eigna sem nemur nafnvirði greiðslunnar í erlendum gjaldmiðli. Einsýnt þykir að útlánaáhætta þesskonar eigna er að ákveðnu leyti beintengd gengi krónunnar en ekki greiðslugetu viðkomandi skuldara eins og hún er áætluð þegar lánið er veitt. Seðlabankinn mun því leggja hart að fjármálafyrirtækjum að vinna með heimilum og fyrirtækjum að endurskipulagningu skulda í erlendum gjaldmiðlum.

Fjármálafyrirtæki munu væntanlega hraða því ferli eins og frekast er unnt. Reglur Seðlabankans munu taka mið af þessari stöðu og kappkosta líkt og áður segir að koma fjármálakerfinu í jafnvægi á nýjan leik hvað varðar misvægi gjaldeyriseigna og -skulda.

Reglur um gjaldeyrisjöfnuð fjármálafyrirtækja geta í mörgum tilfellum gegnt veigamiklu varúðarhlutverki í litlum opnum hagkerfum. Stöðutökur með eða á móti smáum gjaldmiðli eins og íslensku krónunni geta verið uppspretta mikilla gengissveiflna og mögulega ógnað fjármálastöðugleika ef ekki er haft nægilegt eftirlit með misvægi gjaldeyriseigna og -skulda.

Reglur Seðlabankans um gjaldeyrisjöfnuð fjármálafyrirtækja voru síðast endurskoðaðar haustið 2009. Vegna aðstæðna sem upp komu eftir fall viðskiptabankanna reyndist nauðsynlegt að endurskoða reglurnar enda var fjármálafyrirtækjum nær ómögulegt að leiðrétta gjaldeyrismisvægi sem myndast hafði á efnahagsreikningum eftir fjármálaáfallið. Var m.a. af þeim sökum bætt við undanþáguheimild þar sem fá fjármálafyrirtæki gátu uppfyllt reglurnar.

Staða íslenskra fjármálafyrirtækja er nokkuð einsleit að því er varðar misvægi gjaldeyriseigna og -skulda. Vandinn er djúpstæður og þörf er á endurskoðun reglnanna. Í ljósi gjörbreyttra aðstæðna sem ekki sér fyrir endann á, taldi Seðlabankinn mikilvægt að laga reglurnar að hluta til að þeim vanda sem lánastofnanir glíma nú við.

Það er eigi að síður mikilvægt að reglusetning af þessum toga rati ekki út af sporinu með þeim afleiðingum að Seðlabankinn missi sjónar á langtímamarkmiðum reglna um þjóðhagsvarúð. Reglurnar munu því miða að því að koma fjármálakerfinu í jafnvægi á nýjan leik hvað varðar misvægi eigna og skulda í erlendum gjaldmiðlum. Í því felst meðal annars að Seðlabankinn mun kalla eftir langtum ítarlegri upplýsingum um skiptingu gjaldeyriseigna og -skulda en gert hefur verið hingað til, að því er segir í ritinu Fjármálastöðugleiki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×