Handbolti

Pólverjar hafa ekki heldur unnið verðlaun á Evrópumóti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pólverjar fagna bronsveðlaunum sínum á HM í Króatíu 2009.
Pólverjar fagna bronsveðlaunum sínum á HM í Króatíu 2009. Mynd/AFP
Pólverjar hafa ekki unnið til verðlaun á Evrópumóti í handbolta ekki frekar en Íslendingar en þjóðirnar mætast klukkan 14.00 í leik um 3. sætið á Evrópumótinu í Austurríki.

Pólska landsliðið hefur þegar bætt sinn besta árangur á Evrópumóti en liðið hafði best náð 7. sæti á EM í Noregi fyrir tveimur árum. Ísland náði sínum besta árangri á EM 2002 þegar liðið hafnaði í 4. sæti.

Pólverjar eru núverandi handhafar bronsverðlauna á síðasta stórmóti en þeir urðu í þriðja sætinu á HM í Króatíu 2009 eftir 31-23 sigur á Dönum í bronsleiknum. Pólverjar töpuðu þá líka og nú fyrir Króötum í undanúrslitunum en Danir lágu fyrir Frökkum eins og Íslendingar í gær.

Pólverjar hafa alls unnið fjögur verðlaun á stórmótum en þeir urðu líka í 3. sæti á Ólympíuleikunum 1976, í 3.sæti á HM 1982 og í 2. sæti á HM í Þýskalandi 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×