Í frétt um málið í Daily Mail segir að stytturnar hafi verið í eigu Mary Anna Marten sem lést fyrr í ár á áttræðisaldri. Mary Anna, sem er guðdóttir drottningarmóðurinnar í Bretlandi, var í stjórn British Museum. Talið er að stytturnar hafi komið til Bretlands snemma á síðustu öld áður en þær lentu í eigu Mary Anna.
Stytturnar voru smíðaðar fyrir keisarann Qianlong og bera stimpil hans. Þeim hefur væntanlega verið stillt upp sithvoru megin við hásæti hans á sínum tíma en fíllinn er tákn styrks og hamingju í Kína.
Mikil eftirspurn er eftir styttum úr jaði sem þessum meðal efnaðra Kínverja. Nefna má að ein slík, af vatnabuffal, var seld á 3,4 milljónir punda í fyrra.
Sérfræðingur sem Daily Mail ræðir við segir að fílastytturnar tvær séu sérstaklega verðmætar þar sem þær bera stimpil Qianlong.