Innlent

Vísar orðum iðnaðarráðherra á bug - ekki við lífeyrissjóðina að sakast

„Við teljum mjög mikilvægt að koma hjólum atvinnulífsins á stað á nýjan leik en það gerist ekki með slíku viðtali eins og við iðnaðarráðherra í gær," segir Arnar Sigurmundsson formaður Landssamtaka lífeyrissjóða,
„Við teljum mjög mikilvægt að koma hjólum atvinnulífsins á stað á nýjan leik en það gerist ekki með slíku viðtali eins og við iðnaðarráðherra í gær," segir Arnar Sigurmundsson formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, Mynd/Stefán Karlsson
Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, vísar orðum iðnaðarráðherra um illa gangi að fjármagna stóriðjuframkvæmdir vegna tregðu lífeyrissjóðanna til að fjárfesta í íslenska orkugeiranum á bug. Hann segir að ekki sé við lífeyrissjóðina að sakast.

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að fara yrði yfir það hvers vegna lífeyrissjóðirnir væru jafn tregir eins og nýleg dæmi sýni að koma með fjármagn inn í orkugeirann. Hún nefndi máli sínu til stuðnings málefni Orkuveitu Reykjavíkur og HS Orku. „Það er eitthvað sem við þurfum að fara vandlega yfir," sagði Katrín.

Viðtalið kom töluvert á óvart

Arnar segir að viðtalið hafi komið sér töluvert á óvart. „Í fyrsta lagi voru lífeyrissjóðirnir í viðræðum við Landsvirkjun um að koma að fjármögnun Búðarhálsvirkjunar. Þær viðræður hafa legið niðri um nokkurn tíma. Ekki vegna lífeyrissjóðanna heldur vegna þess að Landvirkjun ætlaði að kanna á erlendum fjármálamarkaði hvort þeir ættu kost á erlendu láni," segir Arnar.

Í annan stað hafi átt sér stað viðræður varðandi HS Orku en lífeyrissjóðirnir hafi ekki verið tilbúnir að koma að verkefninu sem eigendur. „Við létum sérfræðinga lífeyrissjóðanna skoða þau mál varðandi hugsanleg kaup á hlutafé. Niðurstaðan var sú að menn náðu ekki saman um verðmat og þess vegna kláraðist sú umræða."

Í þriðja lagi segir Arnar að Orkuveita Reykjavíkur hafi boðið út skuldabréf. „Nokkrir lífeyrissjóðir keyptu skuldabréf af Orkuveitunni en ekki allir. Þannig að á sama hátt hafa lífeyrissjóðirnir nálgast þetta mál að markaðslegum ástæðum og þannig er staðan í dag, Það er ekkert sem stendur þar upp á okkur."

Hafa áhyggjur af þróun atvinnumála

Arnar segir að Landssamtök lífeyrissjóða hafi jafn miklar áhyggjur af þróun atvinnumála hér á landi og allir aðrir. „Tólfti hver aðili sem greiddi í lífeyrissjóði er núna atvinnulaus. Við teljum mjög mikilvægt að koma hjólum atvinnulífsins á stað á nýjan leik en það gerist ekki með slíku viðtali eins og við iðnaðarráðherra í gær."

Þá segir Arnar sjálfsagt að fara yfir þessi mál. „Það eru viðræður í gangi við ríkishópinn svokallað um aðkomu að ákveðnum atriðum og þær ganga að sumu leyti þokkalega. En í þessum atriðum sem ráðherra vísaði til er meiri hægagangur, en þar er ekki við lífeyrissjóðina að sakast."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×