Innlent

Hvalhræ urðað við Ásbúð

Breki Logason skrifar

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvað gert verði við hræið af Steypireyði sem rak á land við eyðibýlið Ásbúð á Skaga fyrir skömmu. Líklegt er þó að það verði urðað í fjörunni.

Við sögðum frá Hvalrekanum í fréttum okkar í gærkvöldi en um er að ræða tæpa 23 metra langa Steypireið sem þó var ekki fullvaxta. Fornleifafræðingar frá Byggðasafni Skagafjarðar fundu skepnuna á mánudag, en talið er að hann hafi rekið á land skömmu áður.

Það er í verkahring Heilbrigðiseftirlits Norðurlands Vestra að taka ákvörðun um hvað gert verði við hræið. Fulltrúar frá stofnuninni höfðu ekki enn farið á vettvang þegar fréttastofa kannaði málið í dag en von var á fulltrúa seinni partinn eða strax í fyrramálið.

Fyrr á öldum þótti Hvalreki mikil búbót fyrir sveitunga og er fræg sagan af miklum hvalreka á þar síðustu öld í Miðfirði, en þangað mun fólk alla leið af Snæfellsnesi hafa komið til þess að næla sér í kjöt.

En nú er öldin önnur.

Nályktin af hræinu getur haft skelfilega afleiðingar á fuglalíf í nágrenninu, en nokkur æðavörp eru á svæðinu. Því er líklegast talið að hvalurinn verði urðaður í fjörunni við Ásbúð, en til þess verks þyrfti stórvirkar vinnuvélar og mikla fyrirhöfn.

Hinn möguleikinn, og sá sem skapar mun minni vandamál, er að hvalinn reki einfaldlega aftur út á sjó, helst nokkuð frá landi þar sem hvorki Heilbrigðiseftirlit né stórvirkar vinnuvélar koma að málum.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×