Viðskipti innlent

Yfirtaka Sparisjóðabankans á Mörgu smáu í lagi

„Ekki er ástæða til þess að aðhafast frekar vegna yfirtöku Sparisjóðabanka Íslands hf. á Mörgu smáu ehf." segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um málið en það barst inn á borð eftirlitsins í febrúar s.l. Yfirtakan var í formi þess að skuldum félagsins var breytt í eignarhald bankans.

Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Sparisjóðabankinn er fjármálafyrirtæki sem starfar á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki. Bankinn sérhæfði sig í heildsöluþjónustu við sparisjóði í landinu, auk þess að stunda lánaviðskipti við valda viðskiptavini. Fjármálaeftirlitið ákvað þann 21. mars 2009 að taka yfir vald hluthafafundar SPB. Þá ákvað Fjármálaeftirlitið 27. mars að skipa bankanum skilanefnd sem fer með öll málefni SPB og hefur umsjón með allri meðferð eigna hans og skulda.

Margt smátt starfar á innlendum auglýsingavörumarkaði og sérhæfir sig í innflutningi og merkingu á hinum ýmsu vöruflokkum, s.s. fatnaði, smávöru og gjafavöru. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru á annað þúsund fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga. Helstu samkeppnisaðilar eru Bros-Gjafaver ehf., Tanni ehf., Valfoss ehf., Marko-Merki ehf., Prentun og pökkun ehf., Emot ehf. og Mótíf hf.

Samrunaaðilar áætla markaðshlutdeild fyrirtækisins um 20-25% markaðarins og er fyrirtækið stærsti aðilinn sem starfar á umræddum markaði. Engin efni eru til þess að ætla að með yfirtökunni stofnist til markaðsráðandi stöðu á markaðnum.

Í samkeppnislögum segir að telji Samkeppniseftirlitið að samruni hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða eins eða fleiri fyrirtækja verði til eða slík staða styrkist, eða verði að öðru leyti til þess að samkeppni raskist með umtalsverðum hætti geti stofnunin ógilt samruna eða sett honum skilyrði.

Það er mat Samkeppniseftirlitsins að samruni þessa máls raski ekki samkeppni samkvæmt þeim viðmiðunum sem felast í samkeppnislögum. Við rannsókn málsins var m.a. tekið til athugunar hvort samkeppni kunni að verða raskað með eignarhaldi Sparisjóðabanka Íslands. Samkeppniseftirlitið telur að ekki séu forsendur til íhlutunar á þeim grunni. Við það mat var m.a. horft til markaðshlutdeildar MS og þess að SPB er ekki umsvifamikill í endurskipulagningu fyrirtækja auk þess sem hann sinnir ekki lengur almennri viðskiptabankaþjónustu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×