Viðskipti innlent

Tíðin ágæt fyrir fjárvana frumkvöðla

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson skrifar
Frumkvöðlar eiga mun auðveldara um vik að leita sér fjármagns nú en áður, að sögn framkvæmdastjóra og helsta skipuleggjanda fjárfestaþingsins Seed Forum.
Frumkvöðlar eiga mun auðveldara um vik að leita sér fjármagns nú en áður, að sögn framkvæmdastjóra og helsta skipuleggjanda fjárfestaþingsins Seed Forum. MYND: GVA
„Það er fyrst nú eftir hrunið að ég tek eftir því að áhugi fjárfesta á sprotafyrirtækjum er að aukast. Þau leituðu eftir svo lágum upphæðum áður að fáir litu við þeim," segir Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks - nýsköpunarmiðstöðvar atvinnulífsins, sem blæs til fjárfestaþings undir merkjum Seed Forum á föstudag.

Þetta er ellefta fjárfestaþing Seed Forum þar sem frumkvöðlar kynna fyrirtæki sín og hugmyndir fyrir fjárfestum. Þing sem þetta er haldið tvisvar á ári, í apríl og október. Á þinginu nú koma fram fulltrúar sjö fyrirtækja, fimm íslenskra og tveggja norskra. Þau eru flest eins til tveggja ára þótt eldri fyrirtæki leynist á milli. Belgingur er yngsta sprotafyrirtækið, um eins árs. Það þróar nákvæmari veðurspár en sést hafa. Rannsóknarvinna hefur staðið yfir lengur.

Eyþór segir nýsköpun hafa verið setta í salt hér í allt að sex ár og því vanti sprotafyrirtæki á vaxtarstigi. Sú þróun skrifast á bankana, sem sugu til sín mikið af fólki fyrir hrun og almennt hagstæðari fjárfestingarkosti í öðru en áhættusömum kaupum í sprotafyrirtækjum. Nú horfir til betri vegar, að mati Eyþórs. Hann bendir á að fjárfestingarkostir séu færri nú en áður og fjármagn þurfi að leita í annan farveg. Þá hafa stjórnvöld og opinberar stofnanir stutt mjög við nýsköpun eftir bankahrunið, svo sem með skattalegum ívilnunum. Hann segir aðgengi að fjármagni hafa skánað strax í fyrrahaust og bendir á að eitt fyrirtækjanna sem kynnt var á þinginu í október í fyrra hafi landað samningi yfir kvöldverði síðar um kvöldið. Á meðal kunnra sprotafyrirtækja sem hafa farið á flug eftir fjárfestakynningu Seed Forum eru tölvuleikjafyrirtækin CCP og Gogogic auk tískuvörufyrirtækisins E-Label og tæknifyrirtækisins Fjölblendis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×