Malcolm Walker, forstjóri Iceland Foods, staðfestir að 202 milljónir punda á innstæðum í töflu sem Jón Ásgeir Jóhannesson sendi Lárusi Welding og Jóni Sigurðssyni, hinn 22. september 2008, hafi tilheyrt Iceland Foods. Hann segist ekki skilja hvers vegna slitastjórn Glitnis og Kroll staðreyndu þetta ekki með því að hafa samband við fyrirtækið.
Eins og fréttastofa hefur fjallað um undanfarna daga fann rannsóknarfyrirtækið Kroll tölvupóst sem Jón Ásgeir Jóhannesson sendi Lárusi Welding, forstjóra Glitnis og Jóni Sigurðssyni, forstjóra FL Group, rétt fyrir hrunið með töflu með bankainnstæðum sem sýna 202 milljónir punda, alls 38 milljarða í fimm nafngreindum breskum bönkum dagsett hinn 22. september 2008. Bankarnir sem um ræðir eru Barclays, HBOS, HSBC, Alliance & Leicester og Bank of Ireland. Formaður slitastjórnar Glitnis, Steinunn Guðbjartsdóttir, og Kroll hafa ástæðu til að ætla að innstæðurnar tilheyri Jóni Ásgeiri og kemur það fram í eiðsvörnum vitnisburði Steinunnar fyrir breskum dómstólum, en vitnisburðurinn er meðal dómsskjala í skaðabótamáli sem þrotabúið höfðaði í New York og er aðgengilegur þar. Þá hefur verið látið í veðri vaka í fjölmiðlum að Jón Ásgeir hafi skotið milljörðum króna undan og grundvallar þrotabúið þá ásökun m.a á umræddum tölvupósti sem Jón Ásgeir sendi.
Jón Ásgeir sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að ásakanir slitastjórnar Glitnis væru „rakalausar lygar" og að innstæðurnar hefðu tilheyrt Iceland Foods og að Glitnir og FL Group hefðu verið í hópi hluthafa Iceland á þessum tíma.
Malcolm Walker, forstjóri Iceland, sagðist í gær þurfa að athuga málið betur en í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu sem hann sendi í dag staðfestir hann að umræddar innstæður hafi tilheyrt Iceland Foods og verið á nafngreindum reikningum fyrirtækisins í þeim fimm bönkum sem um ræðir.
Orðrétt segir hann í tölvupóstinum: „Það vekur furðu mína að ásakanir sem settar eru fram eða vísað er óbeint í af Kroll og Glitni hafi ekki verið staðreyndar áður en þetta var opinberað. Þeir fundu tölvupóst og drógu algjörlega rangar ályktanir. Það eina sem þurfti að gera var að hringja eitt símtal og spyrja spurningarinnar líkt og þú hefur nú gert!" Malcolm Walker áréttaði síðan þetta í símaviðtali við fréttastofuna sem sjá má í myndskeiðinu með fréttinni hér ofar, en þar er jafnframt að finna skjámyndir af tölvupósti Walkers.
Í svari Walkers er tafla með innstæðum Iceland Foods í breskum bönkum hinn 22. september 2008. Alls 202 milljónir punda í sömu bönkum og í töflunni sem Jón Ásgeir sendi á Lárus og Jón, þ.e Alliance & Leicester, HSBC, Barclays, HBOS og Bank of Ireland. Walker segir að þetta séu vitaskuld trúnaðarupplýsingar, en hann telji í lagi að senda þær vegna fyrirspurnar fréttastofu og þar sem þessar upplýsingar hafi nú verið opinberaðar, en tekur þó fram að hann vilji ekki skipta sér af þeirri deilu sem nú sé á milli slitastjórnar Glitnis og Jóns Ásgeirs.
Walker, sem var í nokkur ár náinn viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs í Bretlandi, segir að þótt Iceland Foods hafi verið með stór lán útistandandi haustið 2008 hafi fyrirtækið einnig hátt háar fjárhæðir á bankareikningum í formi innstæðna. Þessar fjárhæðir hafi verið í stuttan tíma á reikningum Iceland og síðan verið nýttar til að greiða niður skuldir. Það er í samræmi við þau svör sem Jón Ásgeir gaf fréttastofu.
Malcolm Walker segir að Jón Ásgeir hafi aldrei haft aðgang að þessum fjármunum, en í krafti stöðu sinnar sem stjórnarformaður Iceland Foods hafi hann endrum og eins óskað eftir upplýsingum um fjárhagsstöðu félagsins og því hafi hann búið yfir upplýsingum um innstæður á bankareikningum þess, en Jón Ásgeir segist hafa sent töfluna með innstæðunum á þá Lárus og Jón Sigurðsson þar sem þeir voru fulltrúar fyrirtækja sem voru hluthafar í Iceland Foods á þeim tíma, þ.e Glitnir og FL Group.
Walker segir að í dag séu samskipti hans og Jóns Ásgeirs engin því Landsbankinn, sem er langstærsti hluthafinn í Iceland, hafi óskað eftir því að Jón Ásgeir stigi niður úr stjórn Iceland Foods eftir að slitastjórn Glitnis höfðaði mál gegn honum í New York og Lundúnum. Landsbankinn hafði tilnefnt Jón Ásgeir í stjórn fyrirtækisins eftir bankahrunið að fenginni ráðgjöf PricewaterhouseCoopers í Lundúnum.
Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs, er stærsti hluthafinn í 365 miðlum sem eiga og reka fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis.