Erlent

Tyrkir hóta stjórnmálaslitum við Ísrael

Óli Tynes skrifar
Frá Istanbúl.
Frá Istanbúl.

Tyrkir hafa í fyrsta skipti hótað að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Utanríkisráðherra Tyrklands sagði í dag að ef Ísraelar ekki annaðhvort bæðust afsökunar á árásinni á hjálparskipin til Gaza eða sættu sig við niðurstöðu alþjóðlegrar rannsóknarnefndar yrði stjórnmálasambandi slitið.

Níu Tyrkir voru skotnir til bana þegar ísraelskir víkingasveitarmenn sigu úr þyrlum niður á skip þeirra.

Ísraelar segja að þeir hafi ekkert til að biðjast afsökunar á, hermennirnir hafi verið að berjast fyrir lífi sínu.

Tyrkirnir hafi ráðist á þá vopnaðir kylfum og hnífum jafnvel áður en þeir voru búnir að sleppa siglínunum og komnir niður á skipið.

Það yrði mikið áfall fyrir Ísrael ef Tyrkland sliti stjórnmálasambandinu.

Löndin hafa verið nánir bandamenn allt frá því Tyrkland viðurkenndi Ísraelsríki árið 1949.

Þau hafa haft með sér nána samvinnu meðal annars í varnarmálum.

Tyrkir hafa nú þegar bannað alla umferð ísraelskra herflugvéla um lofthelgi sína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×