Innlent

Borgin tekur yfir þjónustu við geðfatlaða

Sveinn Magnússon, framkvæmdastjóri Geðhjálpar.
Sveinn Magnússon, framkvæmdastjóri Geðhjálpar. MYND/GVA

Velferðarráð Reykjavíkurborgar samþykkti samhljóða í gær að gengið verði til samninga við félagsmálaráðuneytið um að sú þjónusta sem geðfatlaðir hafa hingað til fengið frá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra flytjist til borgarinnar. Samþykktin kemur í kjölfar viljayfirlýsingar sem undirrituð var á sínum tíma og er hún einnig í samræmi við stefnu Landssamtakanna Geðhjálpar um að nærþjónusta við alla íbúa, fatlaða sem ófatlaða, eigi að vera á ábyrgð viðkomandi sveitarfélags.

Í ályktun stjórnar Geðhjálpar segir að samtökin fagni mikilvæga skrefi og vænti þess að með því verði þjónusta við geðfatlaða í Reykjavík bæði efld og einfölduð frá því sem verið hefur. „Með nýrri skipan mála er ætlunin að áherslan sé á nærþjónustu og einstaklingsmiðað fyrirkomulag í stað stofnanaþjónustu. Geðhjálp væntir þess að með sameiningu og samvinnu sveitarfélaga takist að bæta verulega þjónustu fatlaðra um allt land. Það er forsenda þess að vel takist til með yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga á næsta ári og sem Landssamtökin Geðhjálp binda miklar vonir við."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×