Jón Ólafur Jónsson hrósaði félaga sínum, Hlyni Bæringssyni, fyrir góða frammistöðu er Snæfellingar unnu útisigur á Keflavík í úrslitarimmu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta.
„Hann var rosalegur í dag og snilld að fylgjast með honum. Hann var að hitta vel og sérstaklega að utan. Hann minnti á mig á góðum degi,“ sagði hann og hló.
Hann sagði að sínir menn hefðu greinilega verið tilbúnir í þennan slag, ólíkt fyrsta leik liðanna í rimmunni þegar að Keflvíkingar unnu öruggan sigur.
„Við vorum kannski þreyttir þá eftir erfiða seríu gegn KR en við vorum tilbúnir í dag. Aðalmálið var að við vorum að spila eins og lið, bæði í vörn og sókn. Það skipti mestu máli.“
