Viðskipti innlent

Ólík þróun í veltu atvinnugreina, mikill samdráttur í heild

Ólík þróun veltu í hinum ýmsu atvinnugreinum undanfarið er til marks um hversu misjöfn skilyrði íslenskra fyrirtækja eru um þessar mundir. Velta í ýmsum útflutningsgreinum hefur þannig aukist talsvert á meðan þær greinar sem mest eru undir hælnum á innlendri eftirspurn horfa fram að afar snarpan samdrátt í veltu.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar er gluggað í tölur sem Hagstofan birti nú í morgun yfir veltu fyrirtækja samkvæmt VSK-skýrslum til og með október á síðasta ári. Úr þeim má lesa að á haustmánuðum, þ.e. september og október, var heildarvelta íslenskra fyrirtækja tæpir 460 milljarðar kr., sem samsvarar 4,5% samdrætti í krónum talið frá sömu mánuðum árið áður.

Ef veltuþróunin er hins vegar leiðrétt með vísitölu neysluverðs kemur upp úr kafi að samdráttur í fyrirtækjaveltu á þessu tímabili var ríflega 13% að raunvirði. Séu fyrstu 10 mánuðir síðasta árs bornir saman við sama tíma árið 2008 reiknast okkur til að samdráttur veltu hafi verið tæplega 16% að raunvirði.

Sjávarútvegur getur vel við unað þessa dagana, enda hefur verð sjávarafurða rétt talsvert úr kútnum frá fyrri hluta síðasta árs auk þess sem gengisfall krónu hefur lækkað innlendan kostnað í hlutfalli við markaðsverð erlendis í krónum talið. Þó ber að hafa í huga að langstærstur hluti kostnaðar í útgerð er tengdur gengi krónu beint eða óbeint.

Velta í fiskveiðum var ríflega 21% meiri að nafnvirði í september og október í fyrra en á sama tíma árið 2008, og að raunvirði jókst veltan um 10% á milli ára. Þá jókst velta í matvæla- og drykkjarvöruiðnaði, sem að verulegu leyti skrifast á landvinnslu sjávarafla, um 10% á milli ára að nafnvirði en stóð í stað að raungildi.

Veltusamdráttur var hins vegar í framleiðslu málma á tímabilinu hvort sem litið er til krónutölu eða raunvirðis, enda varð mikið verðfall á áli á seinni hluta síðasta árs. Athygli vekur að velta í greinum á borð við textíliðnað og pappírsiðnað jókst verulega á milli ára, þótt þar sé um lágar upphæðir að ræða í samanburði við útflutningsatvinnuvegina stóru.

Ekki ætti að koma á óvart að velta í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð skrapp mikið saman á milli ára. Á ofangreindu tímabili veltu þessar greinar 40% færri krónum en á sama tíma árið áður, og að raunvirði nam samdráttur veltu í þeim á fyrstu 10 mánuðum ársins meira en 46% frá sama tíma árið áður.

Bílasala átti einnig undir högg að sækja og velti 31% færri krónum á haustmánuðum í fyrra en á sama tíma árið 2008. Var þó bílasala farin að skreppa talsvert saman það ár frá góðærinu 2007. Umboðs- og heildverslun hélt hins vegar þokkalega sjó á tímabilinu, á meðan smásöluverslun skrapp saman um 7%.

Fjörkippurinn sem hljóp í ferðaþjónustu síðastliðið sumar virðist einnig hafa verið að mestu yfirstaðinn í fyrrahaust, þar sem velta hjá hótelum og veitingastöðum minnkaði um 8% að raunvirði í september og október frá sama tíma árið 2008.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×