Viðskipti innlent

Rannsaka verður tapið áður en menn segja af sér

Rúm sjötíu prósent þeirra stjórnarmanna sem áttu sæti í stjórnum lífeyrissjóðanna fyrir hrun, sitja enn þrátt fyrir tug milljarða tap sjóðanna. Skoða verður hvers vegna tapið var svo mikið áður en menn hlaupast undan ábyrgð með afsögn segir lektor.

Lífeyrissjóðirnir töpuðu tugum milljörðum króna í efnahagshruninu. Niðurskurður á lífeyrisréttindum blasir við hjá fjölda sjóða. Þó ekki hjá lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins þar sem réttindin eru ríkistryggð og er tapið því bætt af ríkissjóði. Litlar breytingar hafa orðið á stjórnum sjóðanna fyrir og eftir hrun. Hlutfall nýliða er um 27%.

Í LSR eru þrír nýliðar en mesta endurnýjunin hefur átt sér stað í Lífeyrissjóði verslunarmanna, þar sitja þrír stjórnarmenn sem einnig áttu sæti í stjórninni fyrir hrun. Þá var ráðinn inn nýr framkvæmdastjóri síðasta sumar, Guðmundur Þ. Þórhallsson. Hann var þó ekki að koma að rekstri rekstri sjóðsins í fyrsta sinn þar sem hann var áður forstöðumaður eignastýringar hans.

Í Gildi er einn nýr stjórnarmaður og sömuleiðis í Stapa lífeyrissjóði. Engar breytingar hafa verið gerðar á stjórn Sameinaða lífeyrissjóðsins en tveir nýir stjórnarmenn hafa tekið sæti í Almenna lífeyrissjóðnum.

Vilhjálmur Bjarnason, lektor, segir lausnina ekki felast í því að menn segi af sér á þessum tímapunkti heldur verður að fara gaumgæfilega yfir það hvers vegna tapið er svo mikið.

Lífeyrissjóðirnir fjárfestu í ríkum mæli í skuldabréfum fyrirtækja. Í flestum tilvikum voru skuldabréfin með veði í sjóðsstreymi fyrirtækjanna. Það þýðir að fari þau í þrot eru engin veð fyrir fjárfestingunni.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×