Innlent

Sveiflaði kjöthnífi og heimtaði róandi lyf

Maðurinn ógnaði saklausum, gömlum manni með hnífi. Mynd/ Pjetur.
Maðurinn ógnaði saklausum, gömlum manni með hnífi. Mynd/ Pjetur.
„Hann sagði að hann vildi ekki drepa neinn en yrði að fá róandi lyf og mundi sætta sig við tvær töflur," segir Sigurður Viðar Viggósson sem vaknaði snemma í gærmorgun við að ungur fíkill, vopnaður hnífi, var kominn inn í herbergið hans í leit að lyfjum.

Sigurður Viðar var í heimsókn hjá 84 ára gömlum föður sínum í fjölbýlishúsi aldraðra í Gullsmára í Kópavogi. „Ég hélt fyrst að við hefðum gleymt að læsa íbúðinni," segir Sigurður Viðar. Í raun hafði þjófurinn klifrað upp á svalir á þriðju hæð og komist inn um kviklæstar svaladyrnar. Hann náði sér í kjöthníf í eldhúsinu og rótaði í hirslum í íbúðinni.

„Hann var að leita að lyfjum og kom inn í herbergið. Ég vaknaði, skildi ekkert hver þetta var og spurði hvað hann væri að gera. Hann sagðist vera með hníf en vildi ekki drepa neinn," segir Sigurður Viðar.

Sigurður Viðar sagði manninum að koma sér út. Innbrotsþjófurinn hefði neitað að fara nema hann fengi tvær töflur og síðan hefði hann sagt: „Ég veit að þetta er blokk fyrir eldri borgara og þeir eru allir með lyf."

Sigurður Viðar brást við með því að vefja úlpunni sinni utan um handlegginn og ráðast til atlögu. „Ég réðst á hann og tók af honum hnífinn." Hann segir að maðurinn hafi ekki sýnt mikla mótspyrnu heldur forðað sér. „Ég varð mest hissa þegar hann fór svo út á svalir og lét sig hverfa einhvern veginn niður þrjár hæðir.

Hann sagði þegar hann fór yfir handriðið að ef ég hringdi í lögregluna mundi hann koma aftur og stela öllu því hann vissi hvar ég byggi," segir Sigurður Viðar, sem hringdi í lögregluna engu að síður. Hún kom á þremur bílum og fann manninn í grenndinni skömmu síðar.

Sigurður Viðar býr í Noregi en kom til landsins í heimsókn til föður síns og fjölskyldu í fyrradag. „Ég er feginn að hafa verið til staðar hjá pabba þegar þetta gerðist," segir Sigurður Viðar en faðirinn svaf svefni hinna réttlátu meðan sonurinn glímdi við þjófinn.

peturg@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×