Viðskipti innlent

Íbúðaverð í borginni hefur lækkað um 37,8% að raunvirði

Frá því að íbúðaverð náði hámarki í verðbólunni sem var á íbúðamarkaðinum áður en gjaldeyris- og bankakreppan skall á hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkað um 37,8% að raunvirði.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að leiðrétting á raunverði íbúða í kreppum og niðursveiflum íslensku hagsögunnar hafa fremur átt sér stað í gegnum mikla verðbólgu en nafnverð íbúðarhúsnæðis. Þannig hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu haldið áfram að lækka í ár að raunvirði þó svo að nafnverð íbúðarhúsnæðis hafi hækkað. Nemur lækkunin 1,0% og kemur í kjölfar 20,9% raunverðslækkunar á síðasta ári.

Í árferði líkt og því sem nú ríkir eru það aðallega litlar fjölbýlisíbúðir sem ganga kaupum og sölum á meðan stærri og dýrari eignir eru tregari í sölu enda erfitt að fjármagna slík kaup með nýjum lántökum um þessar mundir. Auk þess leitast fólk við að minnka við sig í slæmu árferði og því alltaf tiltekin grunneftirspurn eftir smærri eignum.

Mætti reikna með því að þessi hegðun markaðarins myndi birtast í meiri lækkun á sérbýli en fjölbýli í kreppu. Þetta hefur samt sem áður ekki verið raunin í þeirri kreppu sem íslenskt efnahagslíf er að takast á við. Nafnverð sérbýlis hefur lækkað um 15,6% frá því að það náði sínu hæsta gildi í bólunni fyrir hrun en lækkun fjölbýlis er 14,1%. Munurinn er til staðar en er sáralítill.

Gera má ráð fyrir því að veltan aukist ekki á íbúðamarkaðinum að neinu ráði fyrr en fjárhagsleg endurskipulagning heimilanna verður um garð gengin, atvinnuástandið hefur batnað og óvissa varðandi framtíðartekjumöguleika heimila minnkar. Búast má við að mælingarvandinn varðandi verðbreytingar á íbúðamarkaði verði umtalsverður þar til að veltan á íbúðamarkaði fari að aukast.

Eftir því sem veltan eykst munu verðvísitölurnar líklega koma betur til skila þeirri lækkun sem orðið hefur í reynd. Þangað til er vert að túlka niðurstöður mælitækjanna hóflega enda líklegt er að þær vísitölur sem eiga að mæla fasteignaverð nái ekki að endurspegla verðþróunina með réttum hætti, að því er segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×