Lífið

Mæðgur deila sögum sínum

safnar mæðgnasögum Meistaraverkefni Sunnu Dísar Másdóttur fjallar um mæðgur og samband þeirra og ber yfirskriftina Augun mín í augum þínum - Mæðgur tala saman.Fréttablaðið/gva
safnar mæðgnasögum Meistaraverkefni Sunnu Dísar Másdóttur fjallar um mæðgur og samband þeirra og ber yfirskriftina Augun mín í augum þínum - Mæðgur tala saman.Fréttablaðið/gva

„Hugmyndin varð til held ég vegna þess að mamma mín hélt upp á fimmtugsafmæli sitt í mars og mér var mikið hugsað til hennar og okkar sambands. Í kjölfarið ákvað ég að verkefnið ætti að fjalla um mæðgur og þeirra magnaða samband,“ segir Sunna Dís Másdóttir um meistaraverkefni sitt í Hagnýtri menningarmiðlun, en verkefnið ber yfirskriftina Augun mín í augum þínum - Mæðgur tala saman. Sunna Dís stendur í ströngu við að safna reynslusögum kvenna af mæðgnasambandinu í eitt stórt fjölskyldualbúm.

Verkefnið samanstendur fyrst og fremst af myndbandsviðtölum við mæðgur sem sýnd verða á sýningu sem opnuð verður á mæðradaginn sjálfan þann 9. maí næstkomandi. Auk þess fær hún aðsendar skemmtilegar sögur og minningabrot um sambönd mæðgna. „Ég setti síðuna upp um helgina og sögurnar eru byrjaðar að detta inn. Ég ákvað að taka af skarið og skrifaði sjálf eina sögu um skiptið sem ég og mamma mín þrættum í heila viku um hvort þátíðin af sögninni skíta væri skítti eða skítaði. Taka skal fram að við vorum þá búnar að vera búsettar í Svíþjóð í um ár eða svo og íslenskan aðeins farin að ryðga.“

Aðspurð segir Sunna Dís íslenskar mæðgur vera nokkuð viljugar til að deila sögum sínum með fólki. „Mér þykir þetta lofa góðu og vil auðvitað bara hvetja fleiri til þess að senda inn sögur. Ég er hrikalega spennt að sjá útkomuna enda hefur þetta verkefni verið ótrúlega skemmtilegt og ég oft átt erfitt með að halda niðri í mér hlátrinum á meðan á viðtölunum stóð,“ segir Sunna Dís sem mun að lokum afhenda Miðstöð munnlegrar sögu verkefnið til vörslu.

Hafi mæðgur áhuga á að deila ævintýrum sínum er hægt að gera svo með að senda póst á augunmin@gmail.com. Þær birtast svo á síðunni www.maedgur.wordpress.com. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.