Viðskipti innlent

Spánverjar fjölmenna til Íslands með skemmtiferðaskipi

Von er á 3.600 spænskum ferðamönnum til Íslands í júlí og ágúst en þá kemur spánska skemmtiferðaskipið Grand Mistral tvisvar sinnum til Reykjavíkur og stoppar í fyrra skiptið í 3 sólarhringa og síðan hefur skipið tveggja daga viðdvöl.

Fjallað er um málið á vefsíðu Faxaflóahöfnum. Þar segir að farþegar með skipinu séu eingöngu Spánverjar og þetta sé í fyrsta skipti sem Ísland er markaðssett á Spáni sérstaklega fyrir skemmtiferðaskip.

Ferðatilhögun er þannig að skipið kemur frá Evrópu með 1200 farþega sem fara af skipinu í Reykjavík og farþegar koma til Reykjavíkur flugleiðina frá Barcelona og Madrid og fara um borð hér. Síðan fer skipið í 14 daga siglingu til Grænlands og snýr aftur og tekur þá við öðrum hóp frá Spáni og skilar af sér þeim sem komu frá Grænlandi og heldur áfram með nýja farþega til Evrópu.

Samtals ferðast 3600 farþegar með skipinu í Íslandsferðinni og verður þeim að sjálfsögðu boðið upp á ýmsar ferðir og afþreyingu á meðan á dvölinni á Íslandi stendur.

Í farþegaskiptum af þessari stærðargráðu þarf nánast að setja upp aðstöðu fyrir farþega á svipaðan hátt og gert er á flugvöllum. Farþegar koma með langferðabílum af flugvelli í húsnæði þar sem innritun fer fram og þar sem slík aðstaða er ekki fyrir hendi á hafnarbakkanum verður að finna hentugan stað í nágrenni Sundahafnar.

Að lokinni innritun verða farþegarnir fluttir að skipshlið en farangur fluttur beint úr flugi í skipið. Með þessum áfanga er verið að stíga nýtt skref í komum skemmtiferðaskipa til Reykjavíkur og vonast er til að þessi þróun haldi áfram og verði viðvarandi.

Grand Mistral er tæplega 50.000 brúttótonna skip og tekur 1200 farþega. Eigandi skipsins er Iberocruceros, sem er með höfuðstöðvar sínar í Madrid.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×