Innlent

Bjarni Ben vill leggja aðildarumsókn til hliðar

Bjarni Ben á landsfundi í fyrra
Bjarni Ben á landsfundi í fyrra
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að við núverandi aðstæður væri réttast að leggja aðild að Evrópusambandinu til hliðar. Þetta kom fram ræðu hans á setningu Landsfundar Sjálfstæðisflokksins klukkan fjögur í dag.

Hann sagði að réttast væri að leggja aðildina til hliðar, ekki bara vegna framkominna hótana um að ekkert verði af samkomulagi nema Ísland gangi að afarkostum Breta, heldur til þess að hægt sé að nýta alla krafta til að sigrast á þeim efnahagserfiðleikum sem við er að glíma.

„Þegar því verkefni er farsællega lokið verða allar forsendur fyrir hendi til að meta afstöðu okkar til aðildar á ný þar sem þjóðin hefur verið höfð með í ráðum.

En ég vil jafnframt að eitt sé alveg skýrt hvað mögulegt framhald þessa máls varðar. Ef viðræður við Evrópusambandið halda áfram þá er það skylda okkar að beita okkur af alefli fyrir því að hagsmuna Íslands verði gætt í hvívetna í viðræðuferlinu. Þá mun Sjálfstæðisflokkurinn gera allt sem í hans valdi stendur til að sá samningur sem kann að verða gerður við Evrópusambandið verji hagsmuni okkar Íslendinga sem allra best. Þjóðin tekur svo afstöðu til samningsins. Um þetta hljótum við öll að vera sammála.

Í sömu ræðu tilkynnti Bjarni að að stofnuð verði Framtíðarnefnd, undir forystu Kristjáns Þórs Júlíussonar, sem ætlað er það hlutverk að endurskoða og móta áherslur í skipulagi og starfi Sjálfstæðisflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×