Innlent

Pétur Blöndal íhugar formannsframboð

Boði Logason skrifar
Pétur Blöndal ætlar að hafa það opið að lýsa yfir framboði til formanns Sjálfstæðisflokksins.
Pétur Blöndal ætlar að hafa það opið að lýsa yfir framboði til formanns Sjálfstæðisflokksins.
„Ég ætla ekki að svara já eða nei, ég er á móti já og nei spurningum," segir Pétur Blöndal alþingismaður aðspurður um hvort hann ætli að bjóða sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins á morgun. Landsfundur sjálfstæðismanna hófst núna klukkan fjögur og verður kosið um formann og varaformann á morgun.

Hann segir að aðrir menn séu að íhuga að hann bjóði sig fram en sækist svo sem ekki mikið eftir því sjálfur. Aðspurður hvort að hann útiloki framboð segir Pétur: „Ég hef aldrei skorast undan ábyrgð þannig séð, það verður hver og einn að gera upp við sjálfan sig. Það eru allir í framboði og ég er ekkert á móti lýðræði," segi Pétur.

En ætlar Pétur að lýsa því yfir á morgun að hann sækist eftir því að verða næsti formaður flokksins? „Ég hugsa ekki. Ég á eftir að tala við einhverja á fundinum og svo framvegis, ég læt það alveg vera opið. Ég er hlynntur lýðræði og hef aldrei skorast undan ábyrgð þegar hún er sett á mínar herðar."

Aðspurður hvort hann sé búinn að semja ræðu til að flytja á fundinum um hugsanlegt framboð sitt segir Pétur: „Nei, mín sjónarmið eru það þekkt að ég myndi bara segja þau. Ég er aldrei með skrifaðar ræður, það er allavega mjög langt síðan. Þetta er bara spurning hvernig þetta vinnst á landsfundinum og þarna hittir maður mikið af gömlum og góðum félögum."

Aðspurður um hvort hann gæti hugsað sér að leiða flokkinn segir Pétur það velkoma til greina að hann segi frá sinni skoðun. „Ef mér yrði falið það í kosningu þá myndi ég axla þá ábyrgð að sjálfsögðu. Formannskjörið er á morgun, ef að mjög margir hafa samband við mig, fleiri en fimm eða tíu, þá gæti vel verið að ég segi frá minni skoðun."

Hann segist aldrei hafa beðið neinn um að styðja sig en hafi boðið sig fram í prófkjörum. „Ég lít ekki á kosningu sem keppni."

Þegar blaðamaður bar það undir hann hvort hann gæti ekki bara svarað því já eða nei hvort hann ætli að bjóða sig fram svaraði Pétur: „Ég ætla ekki að svara já eða nei, ég er á móti já og nei spurningum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×