Innlent

Femínistar reiðir vegna kvennakvölds Besta flokksins

SB skrifar
Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri Grænna, ósátt við kvennakvöld besta flokksins.
Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri Grænna, ósátt við kvennakvöld besta flokksins.

"Það eru vond vinnubrögð og óvirðing að borgin skuli vera að troða sér inn í skipulagningu dags sem væri ekki til án vinnu grasrótarhreyfingu kvenna," segir Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi Vinstri Grænna.

Borgarráð samþykkti í gær að halda Kvennakvöld þann 24. október. Sóley bókaði mótmæli þar sem ekki hefur verið haft samráð við regnhlífasamtök kvennahreyfingarinnar á Íslandi - Skotturnar.

"Tillaga meirihlutans um sérstakan kvennaviðburð í lok október, þvert ofan í fyrirhugaða viðburði á vegum kvennahreyfingarinnar án þess að samráð hafi verið haft við grasrótarsamtök á þeim vettvang, er til marks um slæleg vinnubrögð og afturför hvað samráð og samstarf varðar, þrátt fyrir fögur fyrirheit," segir Sóley í bókun sinni.

24. október er sögufrægur dagur í kvennabaráttunni. Árið 1975 gengu tugþúsundir kvenna út af vinnustöðum og heimilum sínum á þessum degi og ákvaðu að gera stöðu kvenna í samfélaginu sýnilegri. Þessi aðgerð var endurtekin árið 1985 og svo í þriðja skiptið árið 2005 þegar 50 þúsund konur hættu vinnu síðdegis til að benda á að laun kvenna væru aðeins 2/3 hluti af launum karla.

Sóley segir þennan dag ávallt hafa verið skipulagðan af grasrótarsamtökun kvenna og því skjóti skökku við að borgin hafi ekki samráð við þessi samtök. "Það liggur fyrir bréf frá regnhlífasamtökunum Skottunum þar sem borgin er beðin um að sýna þeim stuðning en því bréfi hefur ekki verið svarað."

Forsvararskona Skottanna er Guðrún Jónsdóttir, betur þekkt sem Guðrún í Stígamótum en hún er jafnframt móðir Sóleyjar. Guðrún segir það sérstakt að borgin ræði ekki við þau samtök sem hafa barist fyrir þessum degi.

"Ég trúi ekki öðru en að meiningin sé að styðja kvennabaráttuna," segir Guðrún. "Ég veit ekkert hvað þau eru að hugsa með þessu kvennakvöldi en það er nóg sem við erum með á prjónunum, við erum að skipuleggja alþjóðlega ráðstefnu, og dagskrá á Arnarhóli. Við reyndum að ná eyrum fyrri borgarstjórnar en fengum engin svör."

Guðrún segist treysta því að trúa að hugmyndin sé að leggja kvennabaráttunni lið. "Við hlökkum til að heyra í hinni nýju borgarstjórn varðandi samráð og samstarf," segir Guðrún.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×