Handbolti

Kiel í basli á móti Lübbecke en vann mikilvægan sigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, var svolítið æstur í kvöld.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, var svolítið æstur í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Þórir Ólafsson og félagar í Kiel í TuS N-Lübbecke stríddu Þýskalandsmeisturum Kiel í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld en lærisveinar Alfreðs Gíslasonar unnu að lokum nauman eins marks útisigur, 28-27. Frakkinn Jerome Fernandez skoraði sigurmarkið úr vítakasti.

THW Kiel komst upp fyrir Rhein-Neckar-Löwen í 3. sæti deildarinnar með þessum sigri en liðið er tveimur stigum á eftir Füchse Berlin og þremur stigum á eftir HSV Hamburg sem á leik inni seinna í kvöld.

Þórir Ólafsson skoraði fjögur mörk fyrir TuS N-Lübbecke í leiknum og komu þau öll af vítalínunni. Þórir nýtti fyrstu fjögur vítin sín en lét síðan Svíann Andreas Palicka verja frá sér fimmta vítið.

Kiel var búið að tapa þremur stigum í síðustu þremur deildarleikjumm sínum og mátti því alls ekki við að tapa fleiri stigum ef liðið ætlaði ekki að missa HSV Hamburg alltof langt frá sér í baráttunni um meistaratitilinn.

Aron Pálmarsson fékk ekki mikið að spreyta sig í leiknum og spilaði aðeins sókn og sókn. Aroni tókst ekki að skora en fiskaði eitt vítakast.

Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, var ekki alltof sáttur við dómara leiksins og fékk einu sinn tveggja mínútna brottrekstur fyrir að mótmæla vítakastdómi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×