Innlent

Styðjum veiðar Grænlendinga

SB skrifar
Tómas H. Heiðar og Ásta Einarsdóttir á fundinum í Marokkó.
Tómas H. Heiðar og Ásta Einarsdóttir á fundinum í Marokkó. Mynd/AFP
Tómas H. Heiðar, aðalfulltrúi Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu, segir andrúmsloftið á ársfundi ráðsins gott þrátt fyrir að sáttaumleitan um takmarkaðar veiðar hafi ekki verið samþykkt í gær. Í dag liggur fyrir tillaga Grænlendinga um aukin kvóta til hnúfubaksveiða. Tómas segir Íslendinga styðja Grænlendinga heilshugar.

„Grænland hefur lagt fram tillögu um að auka kvóta sinn í frumbyggjaveiðum um tíu hnífubaka. Þessi tillaga hefur komið frá þeim áður en ekki verið samþykkt. Það er alveg ljóst að Ísland styður þessa tillögu Grænlendinga heilshugar. Það hefur verið sýnt fram á að þetta eru sjálfbærar veiðar og þær styðjum við," segir Tómas.

Síðasta árið hefur verið unnið að alþjóðlegri sátt um hvalveiðar sem hefði falist í því að leyfa takmarkaðar hvalveiðar. Tekist var á um málið á fundinum í gær en ekki náðist sátt.

„Við gerðum okkur vonir um að sátt gæti tekist hér um hina augljósu málamiðlum sem eru takmarkaðar hvalveiðar. Hins vegar kom í ljós að mörg þeirra ríkja sem eru andstæð hvalveiðum geta ekki fellt sig við málamiðlum og styðja aðeins frumbyggjaveiðarnar."

Spurður hvaða ríki það séu, en andstaða Bandaríkjanna við hvalveiðar er löngu þekkt, segir Tómas: "Bandaríkin og Nýja Sjáland voru reiðubúin að fallast á málamiðlun en Brasilía og önnur Suður-Ameríkuríki, Ástralía, Bretland og nokkur önnur Evrópusambandsríki voru á móti."

Ísland sagði sig úr Alþjóðahvalveiðráðinu árið 1992 en sneri aftur í ráðið árið 2002 eftir tíu ára fjarveru. Þá gerði Ísland fyrirvara við bannið á atvinnuveiðum, líkt og Noregur. Ísland og Noregur eru einu ríkin sem stunda atvinnuveiðar en Japanir veiða í nafni vísindanna.

Oft hafa verið hörð átök á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins en spurður út í andrúmsloftið nú segir Tómas að nýr tónn sé kominn í umræðuna um hvalveiðar.

„Það er ljósi punkturinn í myrkrinu að skilningur allra á mismunandi sjónarmiðum hefur aukist. Þó málamiðlunin hafi ekki tekist er andrúmsloftið orðið betra og það gefur manni von um bjartari framtíð."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×