Innlent

Vill að gengistryggingarmál fái flýtimeðferð

Sigurður Kári Kristjánsson.
Sigurður Kári Kristjánsson.

Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur ásamt fleiri þingmönnum Sjálfstæðisflokksins lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingar á lögum um meðferð einkamála sem tryggja að mál sem varða gengistryggð lán og álitaefni þeim tengd fái flýtimeðferð í dómskerfinu.

Sigurður segir ljóst að uppi sé ágreiningur varðandi það hvort dómarnir hafi þýðingu varðandi ýmis álitamál, svosem gengistryggingu húsnæðislána, gengistryggð lán til fyrirtækja og hvernig haga skuli vaxtaútreikningi við endurreikning þeirra gengistryggðu lána sem dæmd voru ólögleg. Þingmaðurinn segir mikilvægt að þessi ágreiningsefni, sem leiða má líkum að rati fyrir dómstóla fái sem skjótasta úrlausn.

„Ég óska eftir því að þetta frumvarp fái sinn sess á dagskrá þessa þingfundar og verði tekið nú þegar til umræðu og atkvæðagreiðslu."

Helgir Hjörvar þingmaður Samfylkingarinnar fór í pontu á eftir Sigurði Kára og þakkaði honum fyrir frumkvæðið og útsjónarsemina. Hann sagði hverjum manni ljóst að mikilvægt væri að eyða óvissunni og sagði hann fullt tilefni til að taka málið til efnislegrar umfjöllunar. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir forseti Alþingis tók þá til máls og sagði að málið væri nú í athugun á fundi formanna flokkanna sem nú stendur yfir.

Síðasti þingfundur sumarsins hófst klukkan tíu í dag. Fyrsta mál á dagskrá átti að vera munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra um áhrif dóms Hæstaréttar um gengistryggingu lána. Skýrslunni var hinsvegar frestað vegna fundarhalda formanna flokkanna þar til síðar í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×