Handbolti

DJ Ötzi syngur EM-lagið í Austurríki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
DJ Ötzi er vinsæll í Austurríki og Þýskalandi.
DJ Ötzi er vinsæll í Austurríki og Þýskalandi. Nordic Photos / AFP
Það er enginn annar en tónlistarmaðurinn DJ Ötzi sem flytur hið opinbera lag Evrópumeistaramótsins í handbolta sem hefst í Austurríki í næstu viku.

Um er að ræða ábreiðu af Sweet Caroline sem Neil Diamond gerði fyrst vinsælt árið 1969. Hlusta má á lagið í flutningi DJ Ötzi hér.

Austurríkismenn hafa fyrst og fremst verið þekktir á tónlistarsviðinu í heimi klassískar tónlistar en DJ Ötzi er sá eini frá Austurríki sem náð hefur alþjóðlegum frama í poppheiminum undanfarin ár. Það gerði hann árið 2000 með lögunum Hey Baby og Anton aus Tirol.

Hann hefur þó ekki slegið slöku við síðan þá og alls gefið út tíu plötur síðan sú fyrsta kom út árið 2000.

DJ Ötzi heitir réttu nafni Gerry Friedle og var hæstánægður með að lagið hans verði notað í keppninni.

„Það er mikill heiður fyrir mig að lagið mitt verði notað til að ná uppi góðri stemmingu á leikjunum á EM. Það er frábært að fá að halda svo stóran íþróttaviðburð í Austurríki og forréttindi fyrir alla áhugamenn um íþróttir," sagði hann eftir að þetta var tilkynnt á æfingaleik Austurríkis og Þýskalalands í síðustu viku.

„Ég hef mikla trú á því að strákarnir eigi möguleika á að komast áfram í milliriðlakeppnina ef við sýnum þeim góðan stuðning."

Þess má geta að landsliðsþjálfari Austurríkis er Dagur Sigurðsson. Ísland er einmitt með Austurríki í riðli á EM, ásamt Dönum og Serbum.

Lagið Sweet Carloine er oft notað í tengslum við íþróttaviðburði, ekki síst á hafnaboltaleikjum í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×