Innlent

Icesave: Fundir með samninganefndum gengið vel

Fjármálaráðherra segir að fundir með samninganefndum Breta og Hollendinga í Icesave-málinu hafi gengið ágætlega eftir að formlegar viðræður hófust að nýju. Hann segir að málið gleymist ekki og öllum sé fyrir bestu að lausn finnist sem menn geti sætt sig við.

Formlegar viðræður íslensku samninganefndarinnar undir forystu Lee Buchheit hófust að nýju í síðustu viku. Steingrímur segir að það hafi loksins tekist að fá menn að borðunum eftir mikla undirbúningsvinnu. „Það er óvíst hvort að það verði fundað meira fyrr en eftir sumarhlé," segir hann.

David Cameron, forsætisráðherra Breta, lét þau orð falla á breska þinginu nýlega að Íslendingar skulduðu Bretum 2,3 milljarða punda vegna Icesave og að Bretar myndu nota umsóknarferli Íslands að ESB til að ganga úr skugga um að Ísland stæði við skuldbindingar sínar.

Í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins hefur birst hörð gagnrýni á íslensku ríkisstjórnina fyrir að hafa haft frumkvæði að því að koma viðræðum af stað milli ríkjanna að nýju.

Hann segist ekki þurfa að fara út í það hvaða áhrif það hefði ef Ísland hefði lýst því yfir að landið ætlaði ekkert að gera. En ef Íslendingar hefðu ekkert gert, ekki haft frumkvæði að viðræðunum? Steingrímur segir að málið hefði aldrei gufað upp eða gleymst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×