Viðskipti innlent

Íbúðafjárfesting dróst saman um helming milli ára

Íbúðafjárfesting dróst saman um helming milli áranna 2009 og 2008, það er milli fyrstu þriggja ársfjórðugna beggja ára. Þetta er mesti samdráttur á þessu sviði hérlendis frá því að byrjað var að reikna þróunina út á ársfjórðungsgrundvelli árið 1997.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þessi þróun leiðir augljóslega til þess að arðsemi í byggingu íbúða fer lækkandi og þar með dregur verulega úr hvata til nýbygginga, eins og raunin hefur verið síðustu misseri.

„Þannig hafði íbúðafjárfesting dregist saman um helming á fyrstu þremur fjórðungum síðastliðins árs samanborið við sama tímabil 2008. Er þetta mesti samdráttur í íbúðafjárfestingu sem mælst hefur frá því að byrjað var að taka saman þjóðhagsreikninga á ársfjórðungslegum grunni árið 1997," segir í Morgunkorninu.

Á meðan hratt hefur dregið úr tólf mánaða hækkun vísitölu byggingarkostnaðar hefur verð á íbúðarhúsnæði farið lækkandi á sama tíma. Þannig hafði verð á íbúðarhúsnæði í desember síðastliðnum lækkað um 12% undangengna 12 mánuði m.v. vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sem Fasteignaskrá Íslands tekur saman.

Jafnframt má reikna með að offramboð óseldra íbúða og ónýttra lóða komi til með að halda aftur af íbúðafjárfestingu um þó nokkurn tíma og telja má líklegt að íbúðabyggingar taki ekki að glæðast á ný fyrr en núverandi magn óseldra íbúða hefur minnkað verulega.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×