Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálag ríkisins á leið upp úr þakinu

Skuldatryggingaálag á íslenska ríkið hefur snarhækkað í morgun og eru 5 ára skuldatryggingar á ríkissjóð nú verðlagðar á 648 punkta samkvæmt CMA gagnaveitunni. Það jafngildir 95 punkta hækkun frá lokun í gær.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að í samtali við Reuters skýrir Mats Olausson, greinandi hjá SEB bankanum sænska, hækkunina með aukinni óvissu vegna Icesave og því að fjárhagsvandræði Grikklands, sem mikið er horft til á mörkuðum þessa dagana, hafi almennt hækkað skuldatryggingaálag þeirra ríkja sem búi við slæmar horfur í ríkisfjármálum.

Skuldatryggingaálag á Grikkland hafði í gær hækkað um 24% frá áramótum og stóð í 350 punktum. Á sama tíma hafði skuldatryggingaálag á Ísland hækkað um 35%, en þá er undanskilin hækkunin í morgun sem bætir rúmum 20 prósentum við þá hækkun.

Álagið á Ísland er nú á svipuðum slóðum og það var um miðjan júlí í fyrra, en álagið lækkaði hratt að áliðnu sumri samhliða minnkandi áhættufælni á alþjóðamörkuðum og framvindu Icesave-málsins á Alþingi.

Má segja að þróunin frá áramótum sé spegilmynd þróunarinnar síðsumars í fyrra, þar sem aukin óvissa tengd Íslandi og vaxandi áhættufælni á mörkuðum almennt hafa lagst á eitt um að þrýsta skuldatryggingaálaginu á landið hratt upp, að því er segir í Morgunkorninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×