Enski boltinn

Ungu strákarnir fá tækifæri hjá Man. Utd

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Sir Alex Ferguson, stjóri Man Utd, hefur látið í það skína að hann ætli að leyfa ungum leikmönnum félagsins að láta ljós sitt skína enn meira en síðustu tímabil.

United þarf að vinna titilinn aftur af Chelsea sem rauf þriggja ára einokun United. Félagið vann deildina árið 1996 með leikmönnum eins og David Beckham, Paul Scholes, Nicky Butt og Neville-bræðrunum.

Skotinn hefur nú gefið í skyn að ungir strákar á borð við Danny Welbeck, Jonny Evans, Darron Gibson og Federico Macheda muni fá áilíka tækifæri í vetur og Beckham og félagar fengu fyrir 15 árum.

"Saga Man. Utd er einföld. Félagið hefur alltaf byggt á ungum leikmönnum og mun gera það áfram. Það skiptir þetta félag afar miklu máli að framleiða góða leikmenn því við vitum líka að það gleður stuðningsmenn okkar mikið. Það veitir öllum mikla ánægju," sagði Ferguson.

"Eins og er þá eigum við sífellt fleiri spennandi unga leikmenn og þessir leikmenn taka stöðugum framförum. Það þarf samt að gefa þessum leikmönnum tækifæri. Annars staðna þeir og enda hjá öðrum félögum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×