Innlent

Fjármálaráðherra líst vel á bankaskatt

Ríkisstjórnir Bretlands, Frakklands og Þýskalands tilkynntu í gær að þær ætli að leggja sérstakan skatt á bankastofnanir. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir hug sinn standa til þess að það verði skoðað hér á landi.
Ríkisstjórnir Bretlands, Frakklands og Þýskalands tilkynntu í gær að þær ætli að leggja sérstakan skatt á bankastofnanir. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir hug sinn standa til þess að það verði skoðað hér á landi. Mynd/Valgarður Gíslason

„Ég held að þetta sé að mörgu leyti rétt hugsun og mér fellur hún vel. Að til viðbótar innlánstryggingakerfi sem á að fjármagna sig sjálft með iðgjöldum innlánsstofnana, sé lagt í einhvern stöðugleikasjóð. Þannig er kerfið sjálft látið bera hluta kostnaðarins sem áföll í fjármálakerfinu hafa þegar valdið. Þannig að þetta verður örugglega skoðað hér, allavega stendur minn hugur til þess," segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, spurður um hugmyndir sem settar hafa verið fram um sértækan tekjuskatt á banka.

Ríkisstjórnir Bretlands, Frakklands og Þýskalands tilkynntu sameiginlega í gær að þær ætli að leggja slíkan skatt á bankastofnanir til að vernda skattgreiðendur frá þeim kostnaði sem fylgir fjármálakreppum.

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, setti fram hugmyndir um sérstakan bankaskatt í ræðustól Alþingis hinn 10. júní síðastliðinn en þær vöktu töluverða athygli.

„Við núverandi stöðu ríkisfjármála finnst mér að þeir sem séu mest aflögufærir eigi að leggja meira til. Þannig hef ég nálgast umræðuna hvað varðar skattlagningu einstaklinga og fjármagnstekjuskatt og mér finnst það sama eiga að gilda um fyrirtæki. Hin röksemdin er sú að ég tel að stór hluti af þeim vandamálum sem við eigum að glíma við í dag megi rekja til bankastarfsemi og þess vegna tel ég auðvelt að færa rök fyrir því að þeir eigi að leggja sérstaklega inn í endurreisnina," sagði Magnús Orri í samtali við Fréttablaðið og bætti því við að hugmyndir sínar hefðu fallið í góðan jarðveg innan þingflokks Samfylkingarinnar.

Starfshópur á vegum fjármálaráðuneytisins vinnur um þessar mundir að tillögum í skattamálum. Starfshópnum er ætlað að skila áfangaskýrslu eigi síðar en 15. júlí. Steingrímur J. Sigfússon segir öruggt að starfshópurinn muni fara yfir þessa hugmynd eins og aðrar. magnusl@frettabladid.is












Fleiri fréttir

Sjá meira


×