Innlent

Sagði blaðamanni að matreiða viðtalið eins og hann vildi

Pétur Blöndal er þreyttur á Alþingi.
Pétur Blöndal er þreyttur á Alþingi.

Blaðamaður Fréttablaðsins, Klemens Ó. Þrastarson, sem ræddi og skrifaði viðtal við Pétur Blöndal þingmann í Fréttablaðinu í gær, segir viðbrögð Péturs koma honum á óvart. Pétur sagði í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær að hann hefði ekki vitað að hann hefði verið í viðtali við Fréttablaðið þegar ummælin voru eftir honum höfð.

Haft var eftir Pétri í gær að honum þætti þingmannsstarfið mannskemmandi og illa borgað. Svo sagði hann að honum væri stillt upp „eins og glæpamanni" vegna styrkjamála, en hann hefur ekki gefið upp nöfn hjóna sem prentuðu fyrir hann kosningabækling.

„Það kemur á óvart að Pétur Blöndal hafi ekki talið sig vera í viðtali þegar hann lýsti því yfir við mig að honum væri skapi næst að hætta á þingi. Ég vildi koma því á framfæri svona til að hafa það skjalfest að við töluðum aldrei um það að neitt væri í trúnaði í spjalli okkar," segir Klemens.

„Í miðju símtalinu bað Pétur mig meira að segja um að slíta ekki orð sín úr samhengi, því það hefði komið fyrir áður að blaðamenn gerðu það. Hvernig átti ég að slíta orð hans úr samhengi nema ég myndi birta þau í viðtali?" segir Klemens og bætir við að Pétur hafði í lokin sagt að Klemens væri frjálst að „matreiða" þetta í blaðið eins og hann vildi.

„Pétur hefur líklega verið annars hugar þegar fréttamaður Bylgjunnar spurði hann að þessu í gær. En hann má eiga það að hann þrætir ekki fyrir það sem hann sagði," segir Klemens að lokum.


Tengdar fréttir

Pétur vissi ekki að hann væri í viðtali

Pétur Blöndal þingmaður segir í samtali við fréttastofuna að hann hafi ekki vitað að hann væri í viðtali við Fréttablaðið, en hann segir í blaðinu í morgun að þingmannsstarfið sé mannskemmandi og illa borgað. Svo sé honum stillt upp „eins og glæpamanni" vegna styrkjamála, en hann hefur ekki gefið upp nöfn hjóna sem prentuðu fyrir hann kosningabækling.

Pétri Blöndal er skapi næst að hætta á þingi

Pétur Blöndal þingmaður segir að sér sé skapi næst að hætta á Alþingi. Starfið sé mannskemmandi og illa borgað. Svo sé honum stillt upp „eins og glæpamanni" vegna styrkjamála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×