Innlent

Neyðarstjórn komið á fót

Frá Kópavogi Bæjaryfirvöld hafa tekið í gagnið viðbragðs­áætlun vegna svínaflensunnar.
Frá Kópavogi Bæjaryfirvöld hafa tekið í gagnið viðbragðs­áætlun vegna svínaflensunnar.

Bæjarráð Kópavogs samþykkti í gær ítarlega viðbragðsáætlun vegna heimsfaraldurs inflúensu og stofnaði neyðarstjórn sem tekur til starfa ef og þegar neyðarástand skapast. Viðbragðsáætlunin hefur þegar tekið gildi.

Gunnsteinn Sigurðsson bæjarstjóri er formaður neyðarstjórnarinnar en auk hans sitja í henni bæjarritari, sviðsstjóri framkvæmdasviðs og sviðsstjóri félagsmálasviðs.

Neyðarstjórnin, sem sett var á fót að tilmælum Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, getur í neyðartilfellum tekið ákvarðanir og stofnað til útgjalda umfram það sem segir í fjárhagsáætlun, svo sem vegna kaupa á björgunarbúnaði, matvælum og öðru slíku, enda þoli afgreiðsla þeirra enga bið, eins og segir í tilkynningu frá Kópavogsbæ.

Áætlunin er aðgengileg á heimasíðu Kópavogsbæjar; kopavogur.is. Áherslur hennar eru að styrkja sóttvarnir á vinnustöðum, tryggja fræðslu til starfsmanna um sóttvarnir og viðbrögð við veikindum, meta aðgerðir til að mæta auknum forföllum á vinnustöðum, undirbúa aðgerðir vegna lokana ef til þeirra kemur, kortleggja þá starfsemi sem nauðsynlegt er að haldist órofin verði faraldurinn skæður og gera áætlun um aðgerðir til að tryggja rekstur þeirrar starfsemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×