Viðskipti innlent

Sparisjóðirnir reistir við eftir áramótin

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, sem hér ræðir við formann skilanefndar Kaupþings, bindur vonir við að endurreisn sparisjóðanna verði komin vel á veg fljótlega eftir áramótin, eða þegar málefni stóru bankanna þriggja verði að mestu lokið. Fréttablaðið/Stefán
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, sem hér ræðir við formann skilanefndar Kaupþings, bindur vonir við að endurreisn sparisjóðanna verði komin vel á veg fljótlega eftir áramótin, eða þegar málefni stóru bankanna þriggja verði að mestu lokið. Fréttablaðið/Stefán

Ríkið mun að öllum líkindum leggja Byr til tæpa ellefu milljarða króna eiginfjárframlag, gangi eftir samkomulag sem fjármálaráðuneyti, stjórnendur Byrs, ráðgjafar Olivers Wyman og hluti fulltrúa erlendra kröfuhafa lögðu grunninn að í kringum miðnætti á mánudag. Drög að endurreisn sparisjóðsins lá fyrir á föstudag og var unnið að útfærslunni alla helgina.

„Þetta var mikilvægur áfangi og jákvætt að málið er komið á þetta stig. Við erum sæmilega vongóð," segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um niðurstöðuna en bætir við að málið sé á því stigi að hann geti ekki tjáð sig um það að öðru leyti.

Steingrímur segir ríkisstjórnina hafa bundið vonir við að þegar málum stóru bankanna yrði lokið gæti mannskapurinn einbeitt sér að sparisjóðunum. „Það reyndist mikið verkefni, en við erum sátt," segir hann.

Viðræðum við kröfuhafa er hvergi nærri lokið enda voru ekki fulltrúar allra þeirra viðstaddir samkomulagið á mánudag. Viðræður við kröfuhafa halda áfram eftir áramót og útilokar Steingrímur ekki að næsta stóra áfanga í endurreisn Byrs verði náð í byrjun árs. Í kjölfarið verður farið í að leggja nýjan fjárhagslegan grunn að hinum sparisjóðunum sjö sem hafa óskað eftir eiginfjárframlagi. Eins og áður hefur komið fram eru aðeins tólf sparisjóðir eftir í landinu og hafa fjórir ekki óskað eftir framlagi frá ríkinu.

Stofnfjáreigendur Byrs munu eiga síðasta orðið um endurreisn sparisjóðsins. Málið hefur ekki verið lagt fyrir þá og óvíst hvort þeir muni eiga nokkurn hlut í bankanum að loknu eiginfjárframlagi ríkisins.

Fjárhagsleg staða stofnfjáreigenda Byrs er óljós í dag. Margir þeirra bera milljónaskuldir eftir hlutafjáraukningu í sparisjóðnum haustið 2007. Einhverjir juku stofnfé sitt með sparifé en þeir sem tóku lán fyrir útgjöldunum standa margir illa. Þeir sem Fréttablaðið hefur rætt við segja svo kunna að fara að verði stofnfjáreignin að engu kunni einhverjir þeirra að fara í þrot.

jonab@frettabladid.is










Fleiri fréttir

Sjá meira


×