Innlent

Harmar tortryggnina

Hitaveitu Suðurnesja var skipt upp í HS Orku, sem sér um framleiðsluna, og HS Veitur, sem sér um almenningsþjónustu, um síðustu áramót.
Fréttablaðið/gva
Hitaveitu Suðurnesja var skipt upp í HS Orku, sem sér um framleiðsluna, og HS Veitur, sem sér um almenningsþjónustu, um síðustu áramót. Fréttablaðið/gva

Orkumál Ross Beaty, forstjóri Magma Energy, fyrirtækisins sem hefur hug á að kaupa stóran hlut í HS Orku, harmar að deilur og tortryggni hafi sprottið upp á Íslandi vegna fyrirhugaðra viðskipta.

„Það er óheppilegt, og orsakast að miklu leyti af því að við höfum ekki getað rætt málið á eðlilegan hátt þannig að viðskiptin séu frágengin, þau kynnt og síðan rætt um þau opinskátt. Þetta kom fólki í opna skjöldu vegna þess að það var rætt um málið í bæjarstjórn [Reykjanesbæjar] og það er miður,“ segir Beaty.

Fram hefur komið að Magma Energy hyggst kaupa 10,8 prósenta hlut í HS Orku af Geysi Green Energy (GGE) og hefur jafnframt áhuga á hlutum Reykjanesbæjar og Orkuveitu Reykjavíkur í félaginu. Ef það gengur eftir mun Magma Energy og GGE eiga nær allt hlutafé í félaginu.

Magma Energy er kanadískt orkufyrirtæki sem var stofnað fyrir rúmu ári og var skráð á markað á mánudag. Fyrir skömmu fór fram hundrað milljóna dala hlutafjárútboð til almennings í félaginu, hið fyrsta í Kanada í tæpt ár. Beaty segir að umframeftirspurn hafi verið eftir bréfum í félaginu. Meðal hluthafa er félag í eigu Bills Gates, stofnanda Microsoft.

„Það eru mjög góð skilaboð inni á markaði, og einkum jarðvarmamarkaði, að fjárfestar skuli vera tilbúnir að verja fjármagni af þessu tagi í svona ungan iðnað,“ segir Beaty. Eftir því sem Beaty kemst næst er enginn Íslendingur á meðal hluthafa, en þeir eru á þriðja þúsund.

Beaty hefur komið þrisvar til Íslands á árinu til að undirbúa jarðveginn og hefur að eigin sögn fundað með fjölda ráðamanna, sveitarstjórnarmanna og fulltrúa orkufyrirtækja. Meðal þeirra sem hann hefur fundað með er Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.

Beaty segist hrifinn af jarðvarmanýtingu vegna þess að hún samræmist vel sjónarmiðum hans um umhverfismál. Þrátt fyrir það segist hann ekki hafa neina sérstaka skoðun á því í hvað jarðvarminn sem hann virkjar er notaður. „Ekki sérstaklega, nei. Ef það er eftirspurn eftir orku á annað borð er alltaf betra að svara henni með hreinni orku eins og jarðvarma en óhreinni orku á borð við kol.“

Ein helsta ástæða þess að Beaty beinir sjónum að Íslandi er þekking þjóðarinnar á geiranum. Hann segist vilja freista þess að flytja þá sérfræðiþekkingu með sér úr landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×