Viðskipti innlent

Makaskipti orðin helmingur af fasteignaviðskiptum

Tíðni makaskiptasamninga í fasteignaviðskiptum hefur verið að færast í aukana undanfarna mánuði samkvæmt upplýsingum Fasteignaskrár Íslands. Þannig voru um það bil helmingur allra fasteignaviðskipta á höfuðborgarsvæðinu í apríl mánuði afgreiddur með makaskiptum og 40% í mars.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þetta er hærra hlutfall makaskiptasamninga en sést hefur mánuðina á undan en makaskiptasamningar voru þriðjungur allra fasteignaviðskipta á höfuðborgarsvæðinu fyrstu tvo mánuði ársins.

Eins og kunnugt er hefur tíðni makaskiptasamninga í fasteignaviðskiptum aukist mikið frá síðastliðnu sumri samhliða því sem blikur fóru að sjást á lofti varðandi efnahagshorfurnar framundan, umsvif drógust saman á fasteignamarkaði og framboð lánsfjár til fasteignakaupa byrjaði að þrengjast.

Í kjölfar bankahrunsins í haust fjölgaði makaskiptasamningum svo stórum og voru þær um það bil fjórðungur allra fasteignaviðskipta á höfuðborgarsvæðinu á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Til samanburðar þá voru makaskiptasamningar að meðaltali innan við 2% af öllum fasteignaviðskiptum sem gerð voru á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 2000- 2007.

Þróun síðustu mánaða sýnir að makaskipti við fasteignaviðskipti virðast vera að festast í sessi í því árferði sem nú ríkir enda er það oft eina leiðin sem fær er til að skipta um húsnæði á tímum lausafjárþurrðar og kreppu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×