Innlent

Lán verði tengd launum frekar en verðlagi

Stiglitz á holtinu Hagfræðingurinn var umsetinn fólki sem vildi hitta hann í gær. Fjölmiðla- og stjórnmálamenn sáust á vappi í anddyrinu og í kringum hótelið. Blaðið fékk úthlutað þrjátíu mínútum, sem lengdust í tæpar fjörutíu, enda Stiglitz maður margra orða.
 Fréttablaðið/valli
Stiglitz á holtinu Hagfræðingurinn var umsetinn fólki sem vildi hitta hann í gær. Fjölmiðla- og stjórnmálamenn sáust á vappi í anddyrinu og í kringum hótelið. Blaðið fékk úthlutað þrjátíu mínútum, sem lengdust í tæpar fjörutíu, enda Stiglitz maður margra orða. Fréttablaðið/valli

Nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz telur að ríkinu beri að leiðrétta gölluð húsnæðislán fólks, bæði verð- og gengistryggð. Hann vill halda í krónuna, nema ESB komi betur til móts við svæði sem eiga í vanda. Vísitala til grundvallar verðtryggingu skuli byggja á launum hér eftir.

Íslendingar væru einnig í alvarlegum vanda ef þeir hefðu haft evru og leyft bönkunum að stækka jafn mikið og þeir gerðu.

Íslenskir bankar störfuðu samkvæmt sömu skilyrðum og aðrir bankar, til dæmis í Lúxemborg, ef þeir hefðu verið undir lélegu eftirliti.

Svo segir Joseph Stiglitz: „Þannig bankar hefðu líka getað tekið við innlánum og lánað fé út á óábyrgan hátt.“ Eftirlitskerfið hafi klikkað og það er ekki krónunni að kenna.

Sagan sé svipuð í Bandaríkjunum, þar sem er engin gjaldeyrisáhætta á lánamarkaði. „Þar erum við bara með slæma lánastefnu, en það sem við gerðum ekki, ólíkt ykkur, var að sækja peninga til erlendra sparifjáreigenda.“

GjaldmiðillinnHér á Íslandi hafa verið tveir gjaldmiðlar: króna sem við fáum í laun, og verðtryggð króna sem við borgum skuldir með. Að ekki sé minnst á krónulán sem eru gengistryggð.

Hagfræðingar eru nokkuð sammála um hvernig mynt sé ákjósanleg fyrir hvert svæði og það er næstum því öruggt að þið deilið ekki ákjósanlegu myntsvæði með Evrópu.

Sveigjanleiki krónunnar hjálpar hagkerfinu til að aðlagast þegar áföll verða. Mistökin voru þau að fjármálafyrirtækin seldu gallaða vöru. Að mínu mati er það eins og þegar lyfjafyrirtæki selur töflur og segir þær laga höfuðverk, af því að þær drepa þig. Hausverkurinn hverfur af því að þú missir meðvitund! Þess vegna erum við með lyfjaeftirlit sem segir að töflurnar þurfi að virka, en um leið vera öruggar.

Það sem verðtryggingin gerði var að hún tryggði að bankamennirnir fengju útlán sín endurgreidd, en það gleymdist að bankamenn geta því aðeins fengið greitt að lántakandinn sé á lífi. Það var eiginlega ákveðið að drepa lántakandann og þetta er vandamálið sem þið þurfið að leysa. Þetta var illa hönnuð vara, sem stjórnvöld hefðu átt að segja að væri óörugg vara.

Það sem má læra af þessu er að það þarf að setja á fót fjármagnsvöru-öryggiskerfi. Þið þurfið hér eftir að gæta að því að varan sé í lagi, og það þurfum við líka að gera í Bandaríkjunum. Léleg verðtryggingHvernig hefðu lánin átt að vera?

Venjulegir fátækir Íslendingar hefðu átt að geta fengið vöru sem hefði tekið mið af greiðslugetu þeirra. Það væri sanngjarnt að tengja afborganir við laun. Ef launavísitala hækkar af því að vöruverð hækkar, sem er almenn verðbólga, þá ættirðu að borga meira.

En hér gleymdist að taka með í reikninginn að greiðslugeta eykst ekki eftir því sem verðbólgan hækkar, heldur eftir því hvernig laun hvers og eins hækka, miðað við verðbólgu. Þetta var mjög illa hönnuð vara. Meiningin var að þegar almennt verðlag hækkaði, þar með talið virði launa og húsnæðis, ættirðu að borga meira, en þeir hugsuðu ekki um að verð gæti hækkað óháð launum. Þá ertu bara í enn meiri vandræðum því rauntekjur þínar lækka og afborganir hækka. Þá ætti þvert á móti að lækka afborganir.

Svo að fjármálamarkaðurinn var verulega lélegur. Það er svolítið erfitt að fá innsýn í hvort hann var vanhæfur eða spilltur, en ég held hann hafi verið hvort tveggja. Með spillingu á ég við arðrán. Það er ekki hægt að kenna gjaldmiðlinum um að fjármálakerfið hafi verið heimskt.

Tökum annað dæmi: Þið hefðuð verið með evru og einhverjum hefði dottið í hug að ganga um og bjóða jenalán, með lægri vöxtum. Þar er sama áhættan. Þú getur vel ímyndað þér einhvern gera þetta. Fjármálakerfið er afar snjallt í að arðræna fólk, og ekki bara ómenntað fólk. Jafnvel fólk með doktorsnám að baki skilur ekki fjármálamarkaði. Vill endurskoða skuldirÞú telur bæði verð- og gengistryggð lán hafa verið gölluð?

Já, að því leyti að það hefði ekki átt að leyfa sölu þeirra til íslenskra lántakenda. Þið hefðuð átt að hafa reglubatterí sem útlistaði hver áhættan var með hverri fjármagnsvöru. Sem hefði sýnt fram á að fimm prósent tímans verða 95 prósent fólksins gjaldþrota. Það er óþolandi og það má ekki leyfa slíku að gerast. Rót vandans var að bankarnir voru lélegir, en það er alltaf þannig. Því er meginástæðan fyrir vandræðunum að regluverkið vantaði.

Nú eru lánin í höndum ríkisins og stjórnvöld óttast að afskrifa þau, með þeim rökum að samfélagið hafi ekki efni á því. Ber þeim skylda til að leiðrétta mistökin?

Fólkinu verður að gefa nýtt upphaf, það er spursmál um skilvirkni, félagslegt réttlæti, félagslega samstöðu og réttsýni. Ef það verður ekki gert skapast eigendalaust kerfi, þar sem fólk reynir eftir getu að strípa eignir sínar áður en það missir þær. Það þarf að gera þetta fljótlega og eftir félagslegu samkomulagi. En það má ekki láta saklaust fólk, sem aldrei tók þátt í veðmálum, borga fyrir slæma hegðun annarra. [Þetta er útskýrt betur neðar á síðunni.]

En nú eru sum innlán verðtryggð. Ætti að breyta þeim líka?

Hluti af vandanum er að verðtryggingin kann að vera illa hönnuð. Því hún hækkar áfram, eftir að neyslan breytist. Húsnæði er til dæmis stór hluti af verðtryggingunni og vísitalan hækkar þótt húsnæðisverð lækki. Því er ekki tryggt að verðtrygging endurspegli raunverulega þróun. Eðli slíkra áhættusamninga þarf að ræða í þaula. Í flestum löndum fara laun og verð saman upp eða niður, því skiptir ekki máli við hvort er tengt. Íslenska reynslan sýnir að það þarf að búa til verkfæri sem dugir þegar þróunin er öfug; verð hækka og laun lækka.

Almenna reglan er að áhætta sé færð á þá sem geta staðið undir henni. Hlutfallslegur munur á hreyfingu verðlags og launa ætti að vera greiddur af þeim sem eru ríkastir, eða af samfélaginu; ríki eða fjármálafyrirtækjum.

Okkar flotti fjármálamarkaður skoðaði þetta aldrei. Þetta er næsta stigið og því miður þarf ríkið að koma að því, því fjármálafyrirtæki duga ekki til þessa. Reynsla Svía og SpánverjaÞú ert þá bjartsýnn á framtíð krónu, með því að verðtryggingu verði breytt þannig að hún taki mið af launavísitölu?

Það er rétt, ég held að flestir hagfræðingarnir sem voru við pallborðið [á fyrirlestri í Háskólanum] hafi verið sammála um að krónan gefi gott forskot til að bregðast við breytingum.

Það þarf að borga fyrir þetta hagræði, því það er áhætta fólgin í gengisflökti. Þetta getur kallað á hærri stýrivexti og þið þurfið að taka ákvörðun um kosti þess að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil miðað við þennan kostnað. Þetta er erfið ákvörðun.

Ég held að reynsla til dæmis Svíþjóðar sé að það hafi verið skynsamlegt að taka ekki upp evru, enda er þeirra kostnaður tiltölulega lítill. Þið borgið meira, en á hinn bóginn gerir smæð ykkar sveigjanleikann mikilvægari.

En ef þið fengjuð Evrópu til að koma á sjóðum, innan sameiginlega myntsvæðisins, til að aðlaga svæði að hagsveiflum, þannig að ef þið yrðuð fyrir áföllum gætuð þið auðvitað ekki fellt gengið, en þið fengjuð frekar aðstoð frá nágrönnum ykkar, þá myndi það breyta þessum útreikningum mínum. En Evrópa er enn ekki búin að koma á svo samræmdri efnahagsstefnu.

Ríkin greiða því ákveðinn kostnað af sameiginlegu myntinni en Evrópa hefur ekki fundið út hvernig skuli leggja smyrsl á sárin.

Mér skilst að hér hafi verið afar góð ferðamannavertíð í ár. Á Spáni er 25 prósenta atvinnuleysi og ég held að vertíð þeirra hafi ekki verið góð. Ef þeir hefðu getað fellt gengið um 25 prósent, þá hefðu að líkindum komið fleiri ferðamenn. Það er mikill kostnaður, 25 prósenta atvinnuleysi. Það mætti jafnvel segja að evru-aðild þeirra hafi stuðlað að bólunni þar, því með henni lækkuðu vextir og útlán jukust.

75 prósent Spánverja eru samt ekki í sama vanda og flestir Íslendingar.

Nei, þeir höfðu strangari reglur á fjármálamarkaði, þótt þær hafi ekki stöðvað bóluna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×