Innlent

Aukinn stuðningur raunhæft markmið

Eiríkur Bergmann Forstöðumaður Evrópufræðasetursins á Bifröst segir raunhæft að stefna að því að opinber stuðningur við hefðbundinn íslenskan landbúnað aukist við aðild Íslands að ESB.
Eiríkur Bergmann Forstöðumaður Evrópufræðasetursins á Bifröst segir raunhæft að stefna að því að opinber stuðningur við hefðbundinn íslenskan landbúnað aukist við aðild Íslands að ESB.

Það á að vera samningsmarkmið Íslendinga í viðræðum við Evrópusambandið um landbúnaðarmál að sækjast eftir auknum stuðningi við hefðbundinn fjölskyldubúskap í sveitum, segir Eiríkur Bergmann, dósent og forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst. Hann segir að stefna eigi að því að bændur sem búa á fjölskyldubúi og stunda sauðfjár- eða kúabúskap fái aukna styrki ef Ísland gengur í Evrópusambandið. Aðild að sambandinu bitni aðallega á kjúklinga- og svínabúum á landinu.

Eiríkur segir að Evrópusambandið hafi verið að hverfa frá þeirri stefnu, sem sett var á fót þegar landbúnaður í álfunni annaði ekki eftirspurn eftir matvælum. Þá var hvatt til aukinnar framleiðslu. Nú er offramleiðsla orðin vandamál í álfunni. „Á síðustu tíu árum hefur landbúnaðarstefnan verið að breytast og styrkjakerfi ESB fellur vel að hefðbundnum íslenskum landbúnaði sem er byggður upp á fjölskyldubýli,“ segir Eiríkur. Breytt stefna leggi áherslu á að vernda þá arfleifð og menningarlegu sérstöðu sem fólgin er í dreifðri búsetu og landbúnaði í hverju aðildarríki.

„Samninganefnd Íslands mun fá góðar undirtektir ef hún leggur áherslu á þessa þætti.“

Eiríkur segir að stuðningur við iðnaðarframleiðslu á borð við kjúklinga- og svínakjötsframleiðslu sé almennt á undanhaldi í landbúnaðarstefnu ESB og hið sama muni eiga við um þá framleiðslu hér á landi. Óvíst sé hvaða stuðning verði hægt að finna fyrir grænmetisræktendur en slíkt sé alls ekki útilokað. Hins vegar eigi sauðfjárbúskapur og kúabúskapur ekki að þurfa að kvíða niðurstöðu aðildarviðræðna. Þvert á móti sé viðbúið að niðurstaðan geti falið í sér aukinn stuðning við slíkan landbúnað á Íslandi.

Þótt horfið verði frá því íslenska kerfi, sem tengir stuðning við framleiðslu og verð á framleiðslunni, muni taka við beinir styrkir til bænda sem byggjast á stuðningi við landnýtingu, menningararfleifð og sérstöðu að vega þá skerðingu upp og jafnvel meira til. Að auki geti Íslendingar áfram stutt landbúnað upp að ákveðnu marki innan ESB, í samræmi við reglu um stuðning við landbúnað á norðurslóðum. Finnar og Svíar geti stutt sinn landbúnað um 35% til viðbótar stuðningi ESB.

Í næstu viku kemur á markað bók eftir Eirík Bergmann, sem heitir frá Evróvisjón til evru. Eiríkur segir að henni sé ætlað að vera aðgengilegt upplýsingarit fyrir almenning um Evrópusambandið. peturg@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×