Erlent

Segja Obama-æðið hafa átt rétt á sér

Strax á fyrsta degi í embætti undirritaði Obama tilskipun um að loka eigi fangabúðunum á Kúbu. Á bak við hann standa Joe Biden varaforseti og herforingjar á eftirlaunum.
nordicphotos/AFP
Strax á fyrsta degi í embætti undirritaði Obama tilskipun um að loka eigi fangabúðunum á Kúbu. Á bak við hann standa Joe Biden varaforseti og herforingjar á eftirlaunum. nordicphotos/AFP
Barack Obama fagnaði á miðvikudag þeim áfanga að hafa verið hundrað daga í einu valdamesta embætti heims. Stuðningsmenn forsetans segja afrek hans þessa rúmu þrjá mánuði staðfesta að Obama-æði heimsbyggðarinnar hafi átt fullan rétt á sér. „Við eigum fullan rétt á Obamaæðinu okkar,“ skrifar Jean-Marcel Bourguereau, ritstjóri franska fréttatímaritsins Le Nouvel Observateur, og telur upp nokkur helstu afrek Bandaríkjaforseta þessa fyrstu hundrað daga. Fáum dylst að Obama hefur ekki setið auðum höndum síðan hann tók við einu valdamesta embætti heims. Meðal afrekanna má nefna væntanlega lokun Guantanamo-búðanna, bann við pyntingum, væntanlegt brotthvarf frá Írak, horfur á bættum samskiptum við Rússland og múslimaheiminn, við Kúbu, Íran og jafnvel Norður-Kóreu, og er þetta engan veginn tæmandi upptalning. Obama hefur greinilega gert sér far um að kúvenda frá stefnu fyrri stjórnar í sem flestum málum og hann virðist vilja fara sáttaleiðina frekar en að efna til ágreinings og átaka. Skiptar skoðanir
Fjölskyldan með nýja hundinn Þótt hundurinn, sem dætur forsetans fengu á dögunum, hafi ekki mikla heimspólitíska þýðingu vakti hann þó mikla athygli í fjölmiðlum víðs vegar um heiminn.nordicphotos/afp
Skoðanakannanir sýna að almenningur í Bandaríkjunum er harla ánægður með frammistöðuna, þótt repúblikanar hafi sumir hverjir harðlega gagnrýnt það sem Obama hefur tekið sér fyrir hendur fyrstu hundrað dagana. Dick Cheney, fyrrverandi varaforseti, og fleiri segja hann til dæmis stefna öryggi Bandaríkjanna í voða með glannalegri eftirgjöf við óvini þjóðarinnar og uppljóstranir um umdeildar starfsaðferðir leyniþjónustunnar. Mannréttindasmtökin Amnesty International eru síðan á þveröfugri skoðun og segja alltof lítið hafa gerst. Þrátt fyrir að Obama hafi til dæmis lofað að loka Guantanamo-búðunum og tryggja föngunum þar réttláta meðferð, þá hafi ekkert gerst í málum þeirra. Hundrað dögum eftir valdatökuna mega þeir enn dúsa í klefum sínum, sumir eftir nærri átta ára fangelsi án dóms og laga. Bara byrjuninSjálfur tekur Obama fram að margt sé vissulega ógert af því sem hann ætlar að taka sér fyrir hendur. „Ég held að þetta sé góð byrjun, en þetta er samt bara byrjunin,“ sagði hann á blaðamannafundi í Washington á miðvikudaginn, þegar hann fagnaði hundrað daga áfanganum. „Ég er stoltur af því sem okkur hefur tekist að gera, en það er ekki nóg.“ Að mörgu leyti hafa Obama og ríkisstjórn hans þó haldið áfram á sömu braut og Bush-stjórnin. Í glímu sinni við efnahagskreppuna hefur Obama til dæmis að mestu leyti fylgt þeirri leið, sem mörkuð var af Bush-stjórninni, enda kom áfallið í haust honum jafn mikið á óvart og öðrum. Kosningabaráttan hafði ekki snúist um viðbrögð við efnahagshruni og þar af leiðandi hafði engin sérstök stefna verið mótuð í kosningabúðum Obama. Tækifæri í kreppunniObama hefur vissulega þurft að glíma við erfiðari verkefni strax frá fyrsta degi sínum í embætti en flestir forverar hans. Fyrir utan efnahagskreppuna, sem bjartsýnir hagfræðingar segjast þó farnir að sjá fyrir endann á, höfðu Bandaríkin einangrast rækilega á alþjóðavettvangi í stjórnartíð George W. Bush. Þótt Obama njóti velvildar víðast hvar í heiminum, þá er varla von á því að aftur grói um heilt alls staðar alveg á næstunni. Gamli refurinn Henry Kiss­inger, sem var utanríkisráðherra í stjórn Richards Nixons á áttunda áratugnum, segir reyndar í nýlegri blaðagrein að efnahagskreppan gefi Obama einstakt tækifæri til að ná fram grundvallarbreytingum á fjölmörgum sviðum heimsmálanna: „Efnahagskreppan sýgur til sín orku allra helstu ríkjanna; hver svo sem ágreiningsefni þeirra eru, þá þurfa þau öll að hvíla sig á milliríkjadeilum,“ skrifar Kissinger í Washington Post.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×