Innlent

Harðar deilur um Icesave-samninginn

Margir hafa mótmælt Icesave samkomulaginu undanfarna daga.
Margir hafa mótmælt Icesave samkomulaginu undanfarna daga. Mynd/Vilhelm

Skrifi Alþingi undir Icesave-samninginn verða það afdrifaríkustu mistök í sögu þjóðarinnar. Þetta fullyrða fulltrúar Indefence-hópsins svokallaða, og vísa í þrjú lögfræðiálit sér til stuðnings, sem þeir segjast hafa látið vinna fyrir sig. Sérfræðingur um milliríkjasamninga segir hins vegar ekkert í samningnum koma á óvart.

Hart hefur verið deilt um nokkur ákvæði í Icesave-samkomulaginu við Breta og Hollendinga, sem gert var opinbert í gær. Nokkrir lögfræðingar, ásamt stjórnarandstöðuþingmönnum, hafa lýst yfir gríðarmiklum efasemdum um samninginn og áhrif hans á íslenskan efnahag. Stjórnvöld kalla fullyrðingar þeirra hræðsluáróður.

Í umræðum um samninginn á Alþingi í gærkvöldi voru stjórnarandstæðingar ákaflega harðorðir og kröfðust þess að Alþingi hafnaði samningnum. Stjórnarliðar sögðu Íslendinga ekkert val hafa. Þetta væri illskásta niðurstaða sem í boði væri.

Jóhannes Þ. Skúlason hjá Indefence bendir til dæmis á ákvæði 7, 11 og 16,3 í samningnum. Í ákvæði ellefu eru taldar upp 11 leiðir sem Hollendingar hafa til að gjaldfella ríflega 200 milljarða samninginn samstundis. Meðal annars er þar kveðið á um að hægt sé að gjaldfella samninginn lendi Íslendingar í vanskilum með eitthvað annað lán.

Einna harðast hefur verið tekist á um ákvæði 16,3.

Jóhannes fullyrðir að með því séu allar eigur íslenska ríkisins lagðar að veði geti Íslendingar ekki borgað af láninu. Kæmi til þess gætu Hollendingar og Bretar krafist hvaða eigna íslenska ríkisins sem er upp í skuldina, með vísan til Lugano-samningsins svokallaða, sem er alþjóðréttarsamningur um fullnustu og aðfararhæfi sem sé í fullu gildi á Íslandi.

Þetta aftekur Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra með öllu, og segir að einungis sé um hefðbundið ákvæði að ræða sem finna megi í öllum samningum um milliríkjalán. Jóhannes Karl Sveinsson, lögfræðingur og sérfræðingur í milliríkjasamningum, er sammála Steingrími. Jóhannes Karl segir að ekkert í samningnum komi sérstaklega á óvart.

Jóhannes Skúlason bendir jafnframt á ákvæði númer 7 í samningnum, eða svokallað jöfnunarákvæði. Í því sé kveðið á um að verði einhverjum kröfuhafa veitt greiðsla úr tryggingasjóði umfram tuttugu þúsund evra lágmarkið muni það sama ganga yfir alla kröfuhafa. Nú þegar undirbýr fjöldi hollenskra kröfuhafa mál á hendur Íslendingum og ætla að láta reyna á réttmæti neyðarlaganna, sem þeir telja að hafi mismunað kröfuhöfum milli landa. Jóhannes segir að ef þeir vinna mál sína eða að samið verði við þá geti skuld ríkisins hækkað gríðarlega á svipstundu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×