Erlent

Heimilislausum fækkar í LA

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Heimilislausu fólki í Los Angeles hefur fækkað töluvert þrátt fyrir alvarlega efnahagskreppu í Kaliforníu.

Þjónustumiðstöð heimilislausra í Los Angeles telur á tveggja ára fresti þá íbúa borgarinnar sem ekki hafa þak yfir höfuðið. Síðan árið 2007 hefur þeim fækkað um 38 prósent og eru nú um það bil 43.000. Michael Arnold hjá þjónustumiðstöðinni segir þetta endurspegla átak borgaryfirvalda til að koma þessum hópi til aðstoðar en til þess veitti Los Angeles-sýsla 100 milljónum dollara nýlega.

Um er að ræða næststærstu borg Bandaríkjanna og segir Arnold það nánast einsdæmi að heimilislausum fari fækkandi í hinum stærri borgum landsins. Hins vegar hafi þeim undantekningarlítið fækkað í minni borgunum. Hann segir enn fremur að aukið atvinnuleysi geti óbeint hjálpað heimilislausum við að koma sér upp húsaskjóli þar sem fólksflótti hafi verið frá borginni vegna atvinnuástands sem svo aftur leiði til meira framboðs á leiguhúsnæði og lækkaðs leiguverðs.

Það sé sem sagt röng ályktun sem margir telji augljósa þróun, að með auknu atvinnuleysi fjölgi heimilislausum þar sem færri geti staðið í skilum við leigusala sína. Um tíundi hluti þeirra sem eru á götunni lentu þar þegar lánardrottnar báru þá út úr húsnæði sínu vegna vanskila í húsnæðislánum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×