Viðskipti innlent

Vita ekki hvort bankinn stöðvaði millifærslu Kaupþings

Seðlabanki Íslands vísar til væntanlegrar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, um hvort bankinn hafi komið í veg fyrir að Kaupþing á Íslandi sendi 150 milljónir punda til dótturfélags síns, Singer&Friedlander, daginn fyrir fall Kaupþings. Engar upplýsingar séu til um þetta í bankanum.

Fram kemur í dómi, í máli Kaupings gegn breska fjármálaráðuneytinu að í byrjun október í fyrra, hafi mikið verið reynt að útvega lausafé til handa Singer og Friedlander, dótturfélagi Kaupþings í Bretlandi. Jafnframt segir að ekki sé samræmi í frásögnum vitna; en Sheila Nicoll, yfirmaður í breska fjármálaeftirlitnu, bar fyrir dómi, að 5. október í fyrra, hafi fé flætt út úr Singer og Friedlander bankanum.

Kaupþing hafi sannfært breska Fjármálaeftirlitið um að það myndi útvega breska bankanum sínum, 186 milljónir punda. 7. október, daginn fyrir fall Kaupþings, hafi 36 milljónir punda borist, en 150 milljónir, eða sem nemur ríflega þrjátíu milljörðum króna á gengi dagsins í dag, hafi ekki skilað sér; sá sé skilningur breska fjármálaeftirlitsins, að Seðlabanki Íslands hefði komið í veg fyrir færsluna.

En Sigurður Einarsson, þáverandi stjórnarformaður Kaupþings, sagði í yfirlýsingu að „Í kjölfar þess að Kaupthing Singer & Friedlander var sett í greiðslustöðvun vísuðu lánadrottnar Kaupþings banka hf. þá til þess að greiðslustöðvun dótturfyrirtækis væri vanefnd samkvæmt ákvæðum lánasamninga móðurfélagsins og því ígildi greiðslufalls. ..."

Á þessum tíma hafði Kaupþing fengið þrautarvaralán hjá Seðlabanka Íslands; að upphæð fimm hundruð milljónir evra. Ekki er enn ljóst að fullu hvert þeir peningar fóru.

Seðlabanki Íslands segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að engar upplýsingar liggi fyrir í seðlabankanum um málið. Að öðru leyti sé vísað til upplýsinga sem komi fram í væntanlegri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Fram hefur komið að skrifleg gögn skortir um margt sem átti sér stað hina örlagaríku daga í fyrrahaust. Þá hefur Davíð Oddsson sem var seðlabankastjóri á þessum tíma, sagt í viðtali að rannsóknarnefndin hefði rætt við sig klukkustundum saman.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×