Erlent

Orrusta herskipa við strendur Kóreu

Þessi skip eru sömu gerðar og herskipið sem lenti í átökum við skip frá Norður-Kóreu. fréttablaðið/AP
Þessi skip eru sömu gerðar og herskipið sem lenti í átökum við skip frá Norður-Kóreu. fréttablaðið/AP
Átök milli herskipa frá Norður- og Suður-Kóreu hafa ekki orðið í sjö ár. Á þriðjudaginn skiptust herskip frá ríkjunum á skotum úti af vesturströnd ríkjanna.

Samkvæmt frásögn Suður-Kóreumanna sigldi norður-kóreska skipið yfir landhelgislínu, sem deilur hafa lengi staðið um. Suður-Kóreumenn segjast hafa skotið á skipið frá Norður-Kóreu, sem hafi þó komist undan illa laskað.

Norður-Kóreustjórn neitar því að skipið hafi siglt yfir línuna. Þvert á móti hafi skipið frá Suður-Kóreu verið komið norður yfir línuna og skotárásin því verið algerlega ástæðulaus. Norður-Kóreumenn segjast strax hafa brugðist við og stökkt skipi andstæðingsins á flótta. Norður-Kóreumenn krefjast afsökunarbeiðni frá Suður-Kóreumönnum vegna þessa atviks.

Átökin urðu þegar Bandaríkjamenn skýrðu frá því að Barack Obama myndi senda sérstakan fulltrúa sinn til Norður-Kóreu til að eiga beinar viðræður við stjórnina þar um kjarnorkuáform landsins.

Þetta yrðu fyrstu beinu viðræðurnar við Norður-Kóreumenn frá því Obama tók við völdum í janúar síðastliðnum. „Þetta var vísvitandi ögrun af hálfu Norður-Kóreumanna til þess að vekja athygli áður en Obama kemur,“ sagði Shin Yul, stjórnmálafræðingur við háskóla í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu.

Hann segir einnig að stjórnvöld í Norður-Kóreu séu með þessu að senda Obama skilaboð um að þau vilji að varanlegur friðarsamningur verði gerður við Suður-Kóreu, sem fæli í sér að Norður-Kórea fengi að halda kjarnorkuvopnum sínum.

Bandaríkjastjórn hefur jafnan haldið fast við þá afstöðu að Norður-Kóreumenn verði að losa sig við öll kjarnorkuvopn áður en af friðarsamningi geti orðið.

Kóreuríkin hafa ekki náð samkomulagi um legu landhelgismarka, meira en hálfri öld eftir að Kóreustríðinu lauk. Friðarsamningur var aldrei gerður, heldur aðeins vopnahléssamningur sem enn er í gildi. Strangt til tekið eiga ríkin því enn í stríði.

gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×