Viðskipti innlent

Ríkið að eignast 66% í Teymi

Gangi frumvarp um nauðasamning Teymis hf. eftir mun ríkið eignast 66% hlut í félaginu í gegnum þrjá banka. Landsbankinn (NBI) mun eignast 57,2%, Straumur 7,8% og Íslandsbanki 2,1%.

Eins og fram hefur komið í fréttum nema skuldir Teymis ríflega 42 milljörðum kr. og er NBI með rétt rúmlega 24 milljarða kr. af þeim á sinni könnu.

Eignir Teymis aftur á móti eru eingöngu í eignarhlutir í dótturfélögum þess. Í fylgiriti með fyrrgreindu frumvarpi hafa stjórnendur Teymis metið að heildarverðmæti félaganna sé á bilinu 15,8 til 19,2 milljarða kr. miðað við febrúarlok í ár.

Teymi er móðurfélag 9 fyrirtækja með rúmlega 1.000 starfsmenn. Í fylgiritinu segir að gert sé ráð fyrir að ný stjórn félagsins muni þegar og án tafar ráðast í stefnumótandi vinnu fyrir framtíðarsýn félagsins og samstæðunnar í heild.

Skoðaðir verði möguleikar á sölu félagsins eða einstakra hluta þess. Í því komi til álita að Teymi eða einstök dótturfélög þess verði á einhverjum tímapunkti skráð á skipulegan hlutabréfamarkað.

NBI, sem stærsti hluthafi félagsins gangi nauðasamningurinn eftir, hefur gengist undir að bjóða öðrum hluthöfum minnihlutavernd. Sem dæmi má nefna að NBI mun veita aðilum samkomulagsins rétt til að selja hlutabréf sín samhliða og á sömu kjörum og NBI komi til þess að NBI selji ráðandi hlut til ótengds þriðja aðila.

Þetta er þó háð þeim fyrirvara að a.m.k. 90% hluthafa fáist að samkomulaginu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×