Viðskipti innlent

Þór Saari segir eignir lífeyrissjóða ganga upp í Icesave

Þór Saari þingmaður Borgarahreyfingarinnar segir að Icesave samningarnir muni að óbreyttu valda þjóðinni óbætanlegu tjóni vegna þeirrar skuldastöðu sem hún kemst í. Hann segir að lífeyrissjóðirnir séu teknir sem eign á móti skuldinni.

Í umsögn Seðlabankans um Icesave samningana og getu þjóðarbúsins til að takast á við skuldbindingarnar gerir bankinn ráð fyrir að búið verði að selja allar eignir Landsbankans í lok árs 2015. Þá er gert ráð fyrir að 75% af eignunum innheimtist upp í Icesave skuldina. Samkvæmt þessu verði Icesave skuldin samtals 340 milljarðar árið 2015.

Seðlabankinn telur að þjóðarbúið verði fyllilega fært um að standa undir Icesave samningunum. Með skynsamri hagstjórn og talsverðum afgangi af vöruskiptum við útlönd á tímabilinu 2009-2018 aukist geta þjóðarbúsins til að greiða Icesave enn frekar.

Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, er ekki sammála því mati. Hann sagðist á Alþingi í morgun telja að Icesave málið sé eitt það eitraðasta sem hafi sést á Alþingi. Þór segist einnig telja að Icesave muni að óbreyttu valda þjóðinni óbætanlegu tjóni vegna þeirrar skuldastöðu sem hún kemst í.

Þór segir að lífeyrissjóðirnir fari. Þegar sé gert ráð fyrir þeim sem eign í tölfræðinni þegar kemur að eigum þjóðarbúsins, svo kröfuhafar geti séð hvað sé til. Hann segir að auðlindirnar fari næst, fyrst með Landsvirkjun.

Þór segir að ekki verði til fjármunir í samgöngukerfið, menntakerfið, heilbrigðiskerfið né velferðarkerfið.

Þá tjáði hann sig um útreikninga Fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans. Hann segir að Fjármálaráðuneytið hafi gengið fram með einkennilegar hagvaxtaspár sem virðist í raun ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum. Þór segir að svo virðist sem menn hafi einfaldlega reiknað sig til ásættanlegrar niðurstöðu. "Eins hafa gögn og heimsóknir Seðlabankans vakið upp fleiri spurningar en þær hafa svarað," sagði Þór Saari á Alþingi í morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×