Innlent

Ísland í forystu hóps um verndun lífríkis Norðurslóða

Ævar Petersen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, er nýr formaður vinnuhópsins.
Ævar Petersen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, er nýr formaður vinnuhópsins.
Ísland tók við formennsku í vinnuhóp Norðurskautsráðsins um vernd lífríkis Norðurslóða á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins, sem haldinn var í Tromsö í Noregi í síðustu viku. Ævar Petersen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, er nýr formaður vinnuhópsins.

Að sögn Ævars verður unnið að tveimur stórum verkefnum innan hópsins í formennskutíð Íslands 2009 til 2011. Annars vegar vöktun á líffræðilegum fjölbreytileika á norðurslóðum sem meðal annars á að vakta áhrif loftslagsbreytinga á vistkerfið. Loftslagsbreytingar eru örari á Norðurskautssvæðinu en á flestum öðrum stöðum á jörðinni.

Hins vegar er um að ræða stöðuskýrslur um líffræðilegan fjölbreytileika. Skýrslurnar verða notaðar í vinnu við að hamla gegn eyðingu líffræðilegrar fjölbreytni sem ýmsir alþjóðasamningar fjalla um.

Fundurinn í Tromsö var 7. ráðherrafundur Norðurskautsráðsins, en þeir eru haldnir á tveggja ára fresti. Að þessu sinni sótti Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félagsmálaráðherra, fundinn fyrir Íslands hönd.

Átta ríki eiga sæti í Norðurskautsráðinu, auk fulltrúa samtaka frumbyggja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×