Innlent

Unnur Brá hætt sem sveitarstjóri

Unnur Brá Konráðsdóttir, nýkjörin þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
Unnur Brá Konráðsdóttir, nýkjörin þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
Unnur Brá Konráðsdóttir, nýkjörin þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, hefur látið af störfum sem sveitarstjóri Rangárþings eystra. Hún mun áfram sitja í sveitarstjórn.

Átta sveitarstjórnarmenn náðu kjöri á Alþingi í kosningunum 25. apríl og þar af tveir sveitarstjórar, Unnur og Oddný Harðardóttir sveitarstjóri í Garði.

Unnur óskaði undir lausn frá störfum á fundi sveitarstjórnar síðastliðinn fimmtudag. Hún afsalaði sér jafnframt rétti til biðlauna samkvæmt ráðningarsamningi. Beiðnin var samþykkt samhljóða.

Unnur gerir ráð fyrir því að sitja áfram í sveitarstjórn samhliða starfi sínu á Alþingi. Hún hafi ákveðnum skyldum að gegna gagnvart íbúum í Rangárþingi eystra.

Nýr sveitarstjóri verður ráðinn á næsta fundi sveitarstjórnar og var Elvari Eyvindssyni falið að gegna stöðunni þangað til. Hann var starfandi sveitarstjóri þegar Unnur tók sér leyfi frá störfum í kosningabaráttunni sem og í barneignafríi hennar á síðasta ári.

Eðlilegt að stjórnarmyndunarviðræður taki tíma

Aðspurð segir Unnur eðlilegt að yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræður taki einhvern tíma. „Aftur á móti er náttúrulega til þriggja mánaða gamall stjórnarsáttmáli sem ætti að vera hægt að byggja á. Það væri gott fyrir alla ef þetta færi að taka á sig einhverja mynd."

Nýja starfið leggst afar vel í Unni. Hún segir framundan séu heilmikil verkefni sem þingmenn þurfi að einhenda sér í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×