Innlent

Forseti þrýsti á formann Framsóknar

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð og Ólafur Ragnar.
Sigmundur Davíð og Ólafur Ragnar.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, beitti Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, þrýstingi að styðja minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Lektor við Háskólann í Reykjavík segir enga kvöð hafa verið á formanni Framsóknarflokksins að sitja og standa eins og forsetinn vildi.

Framsóknarflokkurinn ákvað á þingflokksfundi í lok janúar að styðja minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að þegar farið var að ræða stjórnarmyndunina hafi Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, byrjað að þrýsta mjög á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann, að flokkurinn myndi styðja við stjórnina. Á þeim tíma hafði Framsóknarflokkurinn ekki séð aðgerðaráætlun 80 daga stjórnarinnar né séð hvernig hún myndi uppfylla skilyrðin fyrir minnihlutavernd. Ólafur Ragnar mun hafa lagt ríka áherslu á að málin yrðu kláruð sem fyrst.

Sigmundur Davíð segir að það hafi verið mikill þrýstingur að stjórnin yrði mynduð og það hratt. Hann vill hinsvegar ekki staðfesta hvort Ólafur hafi beitt hann þrýstingi.

Guðni Th. Jóhannesson lektor við Háskólann í Reykjavík telur að öllu jöfnu eigi forseti að halda sig til hlés í svona málum en vegna óvenjulegra aðstæðna megi teljast skiljanlegt að forsetinn hafi beitt sér í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×