Viðskipti innlent

Forstjóri Bakkavarar fékk 170 milljónir í árslaun

Ágúst Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar, fékk rúmlega 170 milljónir króna í laun og bónusgreiðslur á síðasta ári. Á sama tíma skilaði fyrirtæki 27 milljarða króna tapi.

Bakkavör er eigu bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona en félagið var stofnað árið 1986.

Síðasta ár var það versta í sögu félagsins en þá tapaði það 27 milljörðum króna.

Á sama tíma og félagið skilaði þessu mikla tapi fékk Ágúst Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar, 149 milljónir króna í laun samkvæmt ársreikningi félagsins. Að auki fékk hann bónusgreiðslur upp á tæpar 25 milljónir króna. Alls fékk Ágúst því rúmar 173 milljónir króna í laun og bónusgreiðslur á síðasta ári eða tæpar 500 þúsund krónur á dag. Rétt er að taka fram að í október tók Ágúst á sig 50 prósenta launalækkun.

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavarar, fékk hins vegar 4,3 milljónir króna í laun á síðasta ári.

Bakkavör rær nú lífróður eftir að félagið gat ekki staðið skil á 20 milljarða króna skuldabréfi sem féll á gjalddaga í síðustu viku. Félagið stendur nú í samningaviðræðum við lánadrottna um framlengingu gjalddaga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×